Fjöldi fólks varð vitni að atvikinu og þáðu um fjörutíu manns áfallahjálp frá Rauða krossinum eftir slysið.
Umrædd hjólreiðakeppni var á vegum Hjólreiðafélags Reykjavíkur en um var að ræða bikarmót í svokölluðu fjallabruni eða „downhill“ hjólreiðum þar sem keppendur hjóluðu niður mjög bratta og grýtta braut sem liggur niður Úlfarsfell.
Mótsstjóri hjólreiðamótsins hefur ekki viljað tjá sig um slysið og ekki hafa verið veittar upplýsingar um áverka mannsins.
Hugur þeirra hjá manninum og aðstandendum
Hjólreiðafélag Reykjavíkur er eitt að undirfélögum Hjólreiðasambands Íslands. Bjarni Már Svavarsson, formaður sambandsins, segist þekkja lítið til málsins en að hugur stjórnarinnar sé hjá þeim sem lenti í slysinu og aðstandendum hans.
„Þetta var bara slys og ekkert við mótshald eða neitt slíkt sem hefði getað komið í veg fyrir þetta slys. Þetta eru aðstæður sem keppendur þekkja og þeir vita hvað þeir eru að fara í þessir „downhill“ hjólarar. Það er ekkert í framkvæmd mótsins eða neitt svoleiðis sem gat komið í veg fyrir þetta.“
Bjarni þekkir ekki hvernig slysið bar að eða hvers konar aðgerð maðurinn undirgekkst í nótt. „Hann er sem betur fer lifandi og það er bara verið að reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga.“