Innlent

Brugðust skjótt við neyðarkalli frá fiskibát við Reykjanesbæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá björgunaraðgerðum í morgun.
Frá björgunaraðgerðum í morgun. Landsbjörg

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst neyðarkall frá skipstjóra lítils fiskibáts sem sendi út neyðarkall laust eftir klukkan níu í morgun. Báturinn var þá vélarvana rétt utan við Keflavík og var við það að reka upp í bergið í norður af smábátahöfninni í Reykjanesbæ, að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.

Einn var um borð. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var þegar í stað kölluð út á mesta forgangi en áhöfn þyrlunnar var að undirbúa æfingarflug og gat brugðist skjótt við og hélt þegar af stað á vettvang.

Báturinn dreginn til Reykjanesbæjar.Landsbjörg

Sjóbjörgunarsveitir á Suðurnesjum, á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar, voru jafnframt kallaðar út sem og lögregla. Skipstjóri báts sem var staddur í nágrenninu var einnig beðinn um að halda á staðinn. Klukkan 9:30, einungis rúmum tuttugu mínútum eftir að neyðarkallið barst, voru björgunarsveitir komnar með bátinn í tog. Á meðan var þyrla Landhelgisgæslunnar í viðbragðsstöðu á vettvangi ef á þyrfti að halda.

Björgunarsveitir héldu með bátinn í höfnina í Reykjanesbæ en viðbragð allra sem að málinu komu var snöggt og fumlaust. Enginn leki virðist hafa komið að bátnum þrátt fyrir að hann hafi nuddast utan í bergið, segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×