Innlent

Gagnrýnir harðlega að opinber stofnun taki þátt í „víkingarugli“

Snorri Másson skrifar

Sviðsett víkingaviðureign var liður í dagskrá víkingafélagsins Rimmugýgjar á Menningarnótt, sem hélt uppi stemningunni bæði við Landnámssýninguna og Þjóðminjasafnið. Þjóðminjasafnið og þetta víkingafélag voru í samstarfi - og þetta gagnrýnir Árni Björnsson þjóðháttafræðingur harðlega. Í innslaginu hér að ofan má sjá myndefni frá víkingahátíðinni og viðtal við Árna.

„Víkingar voru aldrei annað en óaldarflokkar, rétt eins og glæpagengi nú á dögum. Ofbeldið hefur alltaf haft vissan sjarma yfir sér. Maður hefur gaman af því að lesa glæpasögur og menn geta gert þetta að gamni sínu að skálda upp víkingasögur. En mér finnst að opinber stofnun sem vill láta taka sig alvarlega eigi ekki að taka þátt í því. Mér finnst það ótækt, vegna þess að hver eru tengsl Íslands við víkinga? Landnámsmenn voru ekki víkingar. Víkingar komu ekki til Íslands nema örfáir uppgjafarmenn aldraðir,“ segir Árni í samtali við Ísland í dag.

Hugmyndin um Íslendinga sem afkomendur víkinga segir Árni að sé að miklu leyti til afrakstur rómantíseringar sem átti sér stað á meðal erlendra skáldsagnahöfunda á 19. öld, en að hún eigi sér ekki stoð í sögulegum staðreyndum.

„Það er dapurlegt að sjá að gamall vinnustaður minn, þjóðminjasafnið, skuli ætla að leggja nafn sitt við víkingarugl á komandi menningarnótt,” skrifaði Árni, en hann vann við safnið í á fjórða áratug. Sjálfsagt sé að fjalla um járnvinnslu, húsakost eða íþróttir til forna - en „að tengja þessi menningarmál við hryðjuverkamenn er út í hött,” segir Árni.

Annað sem Árni segir byggt á misskilningi og skáldskap er hugmyndin um hinn hyrna víkingahjálm. Slíkir hjálmar hafi fundist frá bronsöld, en að víkingar hafi borið þá sé á meðal ruglsins sem menn hafi gaman af.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×