Innlent

Katrín svarar Björk: Ekki þörf á fleiri orðum heldur aðgerðum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir miður að Björk hafi orðið fyrir vonbrigðum.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir miður að Björk hafi orðið fyrir vonbrigðum. vísir/vilhelm

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, segir að sér þyki leitt að Björk Guðmundsdóttir hafi orðið fyrir vonbrigðum með hana. Meiri þörf á aðgerðum en orðum í loftslagsmálum.

Björk sagði í viðtali við The Guardian í morgun að Katrín hafi á ögurstundu svikið samkomulag sem hún á að hafa gert við Björk og sænska loftslagsaðgerðasinnann Gretu Thunberg um að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum.  

„Það er alveg rétt að Björk hvatti mig til þess að lýsa yfir neyðarástandi í skilaboðum sem hún sendi mér. Það var tekið til skoðunar og rætt á fundi ríkisstjórnar. Okkar niðurstaða var hins vegar að við vildum aðra nálgun, við vildum leggja áherslu á aðgerðir sem skila árangri,“ sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundi um gagnrýni Bjarkar.

Sagði Katrín að öllum mætti vera ljóst að loftslagsmálin væru að valda neyð víða í heiminum. Tími væri kominn á aðgerðir, fremur en orð.

„Það er ekki þörf á fleiri orðum til að ítreka það heldur aðgerðum. Þess vegna vorum við til að mynda með fyrstu þjóða til að lögfesta kolefnisleysi. Við höfum verið að vinna samkvæmt mjög ítarlegri aðgerðaráætlun því að við viljum ná árangri í þesum málum,“ sagði Katrín. Henni þætti leitt að Björk hafi orðið fyrir vonbrigðum.

„Já, það er leitt en ég held að þegar til lengri tíma er horft skipti mestu máli að við, Ísland, náum árangri í raunverulegum aðgerðum í að draga úr losun gróðurhúsategunda og ná kolefnishlutleysi“.

Katrín vísaði því enn fremur á bug að hún hafi ekki gert neitt fyrir umhverfið, líkt og Björk sakaði hana um í umræddu viðtali.

„Algjörlega og loftslagsmálin voru sannarlega til umræðu á þessum tíma, sem og endranær. Við vorum að ræða þau á þessum ríkisstjórnarfundi,“ sagði Katrín að loknum ríkisstjórnarfundi í dag. Horfa má á viðtalið við hana í heild sinni hér að ofan.


Tengdar fréttir

Björk sakar Katrínu um svik á ögur­stundu

Söngkonan Björk Guðmundsdóttir segir að Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hafi á ögurstundu svikið samkomulag sem hún á að hafa gert við Björk og sænska loftslagsaðgerðasinnann Gretu Thunberg. Björk segir að Katrín hafi ekki gert neitt fyrir umhverfið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.