Enski boltinn

Klopp: Auðveldari aðstæður fyrir mig en fyrir Ten Hag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jurgen Klopp sendir stuðningsmönnum Liverpool fingurkossa.
Jurgen Klopp sendir stuðningsmönnum Liverpool fingurkossa. Getty/Robbie Jay Barratt

Jürgen Klopp mætir Erik ten Hag í fyrsta sinn í enska boltanum á mánudaginn þegar Liverpool heimsækir Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni.

Klopp hefur verið knattspyrnustjóri Liverpool frá október 2015 en hinn hollenski Ten Hag hætti með Ajax í vor og tók við sem knattspyrnustjóri Manchester United.

Manchester United olli gríðarlegum vonbrigðum á síðustu leiktíð og það hefur ekki gengið allt of vel á leikmannamarkaðnum í sumar.

Klopp var spurður á blaðamannafundi fyrir leikinn um þær aðstæður sem Ten Hag er nú í á byrjun stjórartíma síns á Old Trafford.

„Ég held að þetta hafi verið auðveldara fyrir mig því ég kom ekki inn í byrjun tímabilsins og þurfti ekki að takast á við leikmannaglugga,“ sagði Jürgen Klopp.

„Fólk á Englandi talar oft um að þetta sé ‚ekki hans lið' en mér fannst þó þetta vera mitt lið frá fyrsta degi. Ég fann til ábyrgðar fyrir frammistöðu allra frá byrjun,“ sagði Klopp.

„Þú getur samt eiginlega ekki borið þetta saman því það eru allt aðrir tímar. Ég kom fyrir sjö árum síðan. Það er langur tími í fótbolta og margt hefur breyst,“ sagði Klopp.

„Þetta er ekki auðvelt ekki síst þegar þú þarft að byggja upp nýtt lið,“ sagði Klopp.

United liðið hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum á móti Brighton og Brentford og er stigalaust á botni deildarinnar. Liverpool liðið hefur reyndar aðeins tveimur stigum meira og United kemst því upp fyrir Liverpool menn með sigri á mánudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.