Lífið

Pop Idol stjarnan Darius látinn rétt rúm­lega fer­tugur

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Darius Campbell Danesh sló í gegn í hæfileikaþáttum í Bretlandi fyrir rúmum tveimur áratugum.
Darius Campbell Danesh sló í gegn í hæfileikaþáttum í Bretlandi fyrir rúmum tveimur áratugum. Getty/David Lodge

Söngvarinn og leikarinn Darius Campbell Danesh er látinn aðeins 41 árs gamall. Danesh skaust upp á stjörnuhimininn þegar hann tók þátt í hæfileikaþáttunum Popstars og Pop Idol fyrir tveimur áratugum síðan. 

Danesh, sem var Skoti, lenti í þriðja sæti í Pop Idol árið 2002 á eftir Will Young og Gareth Gates. Í kjölfarið fór hann að gefa út tónlist og náði lagið hans Colourblind fyrsta sæti á vinsældarlistum í Bretlandi og platan hans Dive In komst í topp tíu á vinsældarlistum. 

Eftir að tónlistarferill hans fór á flug fór hann að leika á West End og tók þátt í uppsetningu söngleikja eins og Chicago og Guys and Dolls samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins.

Danesh fannst látinn á heimili sínu í Minnesota í Bandaríkjunum 11. ágúst síðastliðinn og tilkynnti fjölskylda hans um andlátið í dag. Að sögn fjölskyldunnar hefur lögregla úrskurðað að ekkert saknæmt hafi átt sér stað en dánarorsökin er enn ókunn.

Danesh fæddist í Glasgow árið 1980. Móðir hans er skosk en faðir hans íranskur. Danesh stundaði nám við háskólann í Edinborg í enskum bókmenntum og heimspeki. Hann fór hins vegar snemma að sækjast á sviðið og tók þátt í fyrrnefndum hæfileikaþáttum, þar sem hann skaust upp á stjörnuhimininn. 


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.