Innlent

Næstkaldasta sumar aldarinnar í höfuðborginni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Einn af mörgum hráslagalegum sumardögum í Reykjavík árið 2022.
Einn af mörgum hráslagalegum sumardögum í Reykjavík árið 2022. Vísir/vilhelm

Sumarið sem er að líða í Reykjavík er það næstkaldasta á öldinni og það fimmta blautasta. Þá hefur hæsti hiti ekki mælst lægri í borginni síðan um aldamót.

Meðalhiti í Reykjavík það sem af er sumri er 10,1 stig, 0,8 stigum undir meðallagi áranna 1991 til 2020. Sólskinsstundir eru 417, 33 stundum færri en í meðalári og úrkoman um 30 prósent umfram meðalúrkomu á sama tímabili. Gögnin ljúga ekki; kalt og blautt sumar í höfuðborginni, semsagt.

„Þetta er næstkaldasta sumarið á þessari öld eins og er, og það fimmta blautasta,“ segir Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna hjá Veðurstofu Íslands.

Við erum nefnilega ekki alveg á botninum í ár. Sumrin 2003, 2014, 2018 og 2020 voru öll blautari en sumarið 2022 - og ótrúlegt en satt voru sólskinsstundirnar í fyrrasumar færri en nú. En það er vissulega tilefni til að barma sér.

„Það hafa ekkert verið rosalega margir þurrir dagar í röð. Það hefur verið svolítið einkennandi fyrir sumarið. Og það sem stendur svolítið upp úr núna er að það hefur vantað þessa hlýju daga. Hæsti hitinn í Reykjavík í sumar hefur aðeins mælst 17,9 stig sem er frekar lágt,“ segir Kristín.

Kristín Björg Ólafsdóttir, sérfræðingur á sviði veðurfarsrannsókna.Vísir/Sigurjón

Hitametið í Reykjavík þetta sumarið féll jafnframt afar snemma,10. júní. Það er lægsti hæsti hiti í borginni síðan 2001. Og þá er ekki úr vegi að líta til Akureyrar, blíðviðrisparadísarinnar í norðri - eða svona, oftast nær. Þar hefur nefnilega einnig verið óvenjukalt. Hæsti hiti það sem af er sumri mældist 19,9 stig 14. júní. Það er lægsti hámarkshiti á Akureyri á þessari öld og fara þarf aftur til ársins 1979 til að finna lægri hámarkshita.

En er þarna að merkja einhverja þróun, fyrirboða um það sem koma skal á Íslandi á tímum loftslagsbreytinga? Kristín telur ekki.

„Þetta er bara tilfallandi.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×