Innlent

Tæp­lega sjö þúsund manns sáu gosið í gær

Bjarki Sigurðsson skrifar
Eldgos í Merardölum Fagradalsfjall 2022
Eldgos í Merardölum Fagradalsfjall 2022 Vísir/Vilhelm

Alls fóru 6.685 manns um gossvæðið í gær samkvæmt talningu Ferðamálastofu en lögreglan segir það mega gera ráð fyrir því að fjöldinn hafi verið mun meiri. Aldrei hafa fleiri gengið í átt að gosstöðvunum á einum sólarhring en teljarinn var settur upp í mars á síðasta ári er gosið í Geldingadölum hófst. 

Í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum segir að eftirlit við gosstöðvarnar hafi gengið vel í gær og í nótt en alls voru 36 björgunarsveitarmenn við störf í vettvangsstjórn og í og við gossvæðið. Þrettán einstaklingar þurftu á aðstoð að halda eftir að hafa örmagnast á göngunni eða slasað sig lítillega og vísa þurfti nokkrum fjölskyldum frá við upphaf göngu þar sem þau voru með ung börn.

Í tilkynningunni segir að veðurspáin fyrir miðvikudaginn sé ekki góð og því líklegt að gossvæðinu verði lokað þann dag. Í dag er fínastaveður, norðanátt og fimm til tíu metrar á sekúndu.

„Áætla má að ferðalagið taki að lágmarki 5 til 6 klukkustundir. Gætt getur gasmengunar á gönguslóð og þá sérstaklega í nálægð við gosið. Börn hafa minna þol gagnvart loftmengun og eru skilgreind sem viðkvæmur hópur. Þá er ekki ráðlegt að börn dvelji lengur en 15 mínútur á stað þar sem loftmengun er yfir heilsuverndarmörkum,“ segir í tilkynningunni.

Foreldrum ungra barna er bent á auðveldari gönguleið inn í Nátthaga þar sem skoða má hraunið sem rann í gosinu í fyrra. Þaðan sést þó ekki til gossins inni í Meradölum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×