Innlent

Kunna ekki skýringar á minni gos­ó­róa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Verulega dró úr gosóróa í morgun, sem vakti grunsemdir vísindamanna um að nýar gossprungur kynnu að hafa opnast. Sú er þó ekki raunin, að sögn náttúruvársérfræðings.
Verulega dró úr gosóróa í morgun, sem vakti grunsemdir vísindamanna um að nýar gossprungur kynnu að hafa opnast. Sú er þó ekki raunin, að sögn náttúruvársérfræðings. Vísir/Vilhelm

Jarðvísindamenn telja ekki að nýjar gossprungur séu að opnast í Meradölum, líkt og talið var mögulegt í morgun. Samdráttur í gosóróa á svæðinu í morgun vakti grunsemdir vísindamanna.

Þetta segir Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofunni, í samtali við fréttastofu.

„Um hálfsex í morgun datt óróinn niður í um það bil klukkutíma. Þegar óróinn datt svona niður í fyrra þá opnuðust ný gosop, þannig að við vorum með varann á hvort það gæti gerst. Þar sem óróinn er stiginn aftur upp er ólíklegt að það muni opnast ný gosop í þessum atburði,“ segir Lovísa.

Vísindamenn kanna nú hvað kann að hafa valdið því að gosóróinn tók dýfu. Einn möguleikinn er hrun úr gígnum, sem þó virðist ekki vera skýringin.

„Virknin virðist frekar stöðug, þannig það er bara spurning hvort eitthvað hafi verið að gerast neðanjarðar en ekki náð upp á yfirborðið. Við erum bara að renna yfir þetta og sjá hvað hefur valdið því að þrýstingur datt svona skyndilega niður,“ segir Lovísa.

„Við sjáum ekki að neitt hafi opnast,“ segir Lovísa. Verkefni hennar og kollega hennar er nú að fara yfir fyrirliggjandi gögn til að kanna hvort aðrar breytingar hafi orðið á virkni gossins, eftir atburði morgunsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×