Innlent

Reiknað með leik­skóla og neðan­sjávar­veitinga­stað við Gufu­nes­bryggju

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fyrirhugað útlit miðað við verðlaunatillöguna.
Fyrirhugað útlit miðað við verðlaunatillöguna. Yrki-arkitektar

Borgarráð hefur samþykkt að hefja viðræður við Þorpið-Vistfélag á grundvelli verðlaunatillögu um uppbyggingu við Gufunesbryggju, sem felur meðal annars í sér byggingu leikskóla og veitingastað sem verði að hluta til neðansjávar.  Kanna á hvort raunhæft sé að staðsetja leikskóla á umræddu svæði.

Í tilkynningu frá Þorpinu segir að félagið hafi á dögunum borið sigur úr býtum í alþjóðlegri samkeppni á vegum C40 Reinventing Cities um svæðið við Gufunesbryggju.

„Í samræmi við starfsemina í Gufunesi, þar sem kvikmyndagerð er fyrirferðarmikil, mun Gufunesbryggjan hýsa kvikmyndafyrirtæki, íbúðir, leikskóla, umbúðalausa matvöruverslun og veitingastað sem verður að hluta til neðansjávar. Heilsulind tengist ströndinni með sundlaug, sjósundsaðstöðu, gufuböðum, heitum pottum og hverskonar líkamsrækt. Við bryggjuna verður einnig aðstaða til siglinga á kajökum ofl.,“ segir í tilkynningu Þorpsins.

Fyrirhugað útlit miðað við verðlaunatillöguna.Yrki-Arkitektar

Hugsunin sé að bryggjan verði félags-, atvinnu- og samgöngumiðstöð.

Reiknað er með að íbúðir verði á efri hæðum. Tillögur Þorpsins gera einnig ráð fyrir að rafknúinn bátastrætó tengi Gufunesið og Grafarvoginn við miðborg Reykjavíkur.

Málið var tekið fyrir á fundi borgarráðs í gær þar sem samþykkt var að borgarstjóri og borgarritari hefji viðræður við Þorpið um lóðavilyrði.

Fyrirhugað útlit miðað við verðlaunatillöguna.Yrki-arkitektar

Meðal þess sem á að fullkanna í viðræðunum er hvort sá hluti tillögunnar sem gerir ráð fyrir leikskóla á umræddu svæði sé raunhæfur. Þá þurfi að tryggja aðgengi almennings að strandlengjunni og strandsvæðinu. Einnig verði tekið mið af tillögum um brú milli Gufuness og Viðeyjar.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.