Sport

Var hálfri sekúndu frá Íslandsmetinu

Valur Páll Eiríksson skrifar
Símon Elías Statkevicius bætti sinn besta tíma í morgun.
Símon Elías Statkevicius bætti sinn besta tíma í morgun. Mynd/SSÍ

Evrópumeistaramótið í sundi hófst í Róm á Ítalíu í morgun. Þrír Íslendingar stungu sér til sunds.

Hinn 19 ára gamli Símon Elías Statkevicius var fyrstur þeirra íslensku í laugina en hann keppti í 50 metra flugsundi. Hann bætti sinn besta tíma í greininni um tólf hundruðustu úr sekúndu er hann kom í bakkann á 24,63 sekúndum.

Hann bætti þar með tíma sinn frá Íslandsmótinu í apríl, sem var 24,75. Hann var aðeins rúmri hálfri sekúndu frá Íslandsmeti Arnar Arnarsonar upp á 24,05 sekúndur en Örn setti það í Melbourne árið 2007.

Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir kepptu þá í 100 metra skriðsundi. Jóhanna Elín náði sínum besta árangri í greininni er hún synti metrana hundrað á 56,79 sekúndum, sem er jafnframt í fyrsta skipti sem hún fer undir 57 sekúndurnar.

Snæfríður Sól synti á 56,81 sekúndu sem er aðeins frá hennar besta tíma. Hún synti á 56,15 á Ólympíuleikunum í Tókýó í fyrra. Íslandsmetið í greininni á Ragnheiður Ragnarsdóttir 55,66 sekúndur sem var sett árið 2009.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.