Enski boltinn

Fá annan Dana til að fylla Eriksen-skarðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Enn á ný hefur Brentford sótt á dönsk mið.
Enn á ný hefur Brentford sótt á dönsk mið. getty/James Williamson

Brentford hefur gengið frá kaupunum á danska landsliðsmanninum Mikkel Damsgaard frá Sampdoria.

Damsgaard er væntanlega ætlað að fylla skarðið sem landi hans, Christian Eriksen, skildi eftir sig hjá Brentford. Eriksen spilaði með liðinu seinni hluta síðasta tímabils og átti stóran þátt í að það hélt sér þægilega í ensku úrvalsdeildinni. Eriksen samdi svo við Manchester United í sumar.

Segja má að hlutverkin hafi snúist við frá EM í fyrra þar sem Damsgaard kom inn í danska liðið eftir að Eriksen fór í hjartastopp í fyrsta leik mótsins. Damsgaard skoraði eitt mark á EM, með skoti beint úr aukaspyrnu í leiknum gegn Englandi í undanúrslitunum.

Talið er að Brentford hafi borgað tæpar þrettán milljónir punda fyrir hinn 22 ára Damsgaard. Hann skrifaði undir fimm ára samning við félagið. Damsgaard er fimmti leikmaðurinn sem Brentford fær í sumar. Áður voru Ben Mee, Aaron Hickey, Keane Lewis-Potter og Thomas Strakosha komnir til félagsins.

Damsgaard er sjötti Daninn í leikmannahópi Brentford. Þá er knattspyrnustjóri liðsins, Thomas Frank, danskur.

Brentford gerði 2-2 jafntefli við Leicester City í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Um næstu helgi mætir liðið Eriksen og félögum í United.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.