Fótbolti

Gary Martin tryggði Selfoss sigur á Þór

Atli Arason skrifar
Martin skoraði sigurmark Selfoss gegn Þór.
Martin skoraði sigurmark Selfoss gegn Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Tvö rauð spjöld fóru á loft og þrjú mörk voru skoruð þegar Selfoss vann 2-1 endurkomusigur á heimavelli gegn Þór í Lengjudeildinni í dag. 

Harley Willard kom Þórsurum yfir strax í upphafi leiks þegar hann skoraði fyrsta mark leiksins eftir rétt rúmar 20 sekúndur.

Heimamenn voru þó búnir að jafna leikinn u.þ.b. korteri seinna. Gonzalo Zamorano vann þá vítaspyrnu sem Hrvoje Tokic tók og skoraði úr af miklu öryggi.

Þegar 35. mínútur voru komnar á klukkuna braut Hermann Helgi Rúnarsson á Tokic sem var þá sloppinn einn í gegn og Hermann fékk réttilega rautt spjald í kjölfarið.

Selfyssingar nýttu sér liðsmuninn á 62. mínútu þegar Gary Martin skoraði það sem reyndist vera sigurmark leiksins eftir stoðsendingu frá Stefáni Þór Ágústssyni, markverði Selfoss.

Á 90. mínútu fékk Jón Vignir Pétursson, leikmaður Selfoss, sitt seinna gula spjald og þar með rautt en fyrra gula spjaldið fékk Jón einungis átta mínútum áður.

Með sigrinum fer Selfoss upp í þriðja sæti deildarinnar með 25 stig, níu stigum á eftir toppliði HK. Þór er hins vegar áfram í áttunda sæti með 20 stig, níu stigum frá fallsvæðinu. Bæði lið hafa nú leikið 16 af 22 leikjum deildarinnar.

Upplýsingar um markaskorara og gang leiks kemur frá Fotbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×