Fótbolti

Trinity Rodman spurði hvort hún ætti að fá sér klippingu eins og pabbi sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Trinity Rodman sést hér þegar hún mætti á ESPYs verðlaunin á dögunum.
Trinity Rodman sést hér þegar hún mætti á ESPYs verðlaunin á dögunum. Getty/Leon Bennett

Bandaríska knattspyrnukonan Trinity Rodman hefur fyrir löngu skapar sér sitt eigið nafn í fótboltaheiminum með frábærri frammistöðu með Washington Spirit og með því að vera komin í bandaríska landsliðið fyrir tvítugt.

Trinity var kosin besti nýliðinn í NWSL deildinni í fyrra þar sem hún var einnig valin í lið ársins og vann bandaríska meistaratitilinn með Washington Spirit.

Hún þykir vera framtíðarstjarna bandaríska landsliðsins og líkleg til að spila hlutverk með liðinu á HM á næsta ári.

Trinity er dóttir Michelle Moyer og NBA goðsagnarinnar Dennis Rodman. Hún ólst þó nánast eingöngu upp hjá móður sinni eins og bróðir sinn DJ Rodman.

Trinity hefur séð meira af föður sínum síðan að hún fór að skara fram úr í fótboltanum og hann hefur mætt á leiki hjá henni.

Dennis Rodman varð fimm sinnum NBA-meistari þar af þrisvar sinnum með Michael Jordan hjá Chicago Bulls. Rodman þykir einn allra besti frákastari og varnarmaður sögunnar.

Dennis var líka heimsfrægur fyrir það að lita hárið sitt með alls konar litum og mætti hann oft með nýjan lit í hvern leik.

Trinity Rodman spurði á samfélagsmiðlum í gær hvort hún ætti að ná sér í klippingu eins og pabbi sinn og birti þá gamla mynd af Dennis Rodman með flekkótt hár.

Trinity fékk góð viðbrögð við því en svo er bara spurning hvort hún þori.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.