Innblásturinn er fastur liður hjá Lífinu á Vísi þar sem rætt er við ólíkt fólk um hvað veitir því innblástur í tilverunni og hvaða ráðum þau luma á varðandi andlega heilsu.
Hver ert þú í þínum eigin orðum?
Listamaður, performer, athafnastjóri, vinur, sonur, hundapabbi, kærleiksbjörn, einhyrningur, félagslyndur einfari, ofhugsari, hugleiðari, ígrundari og skrifari.
Hvað veitir þér innblástur?
Sannleikurinn.
Þegar ég sjálfur finn nýjan sannleikann innra með mér eða ég finn hvernig annað fólk lifir í sínum sannleika og kjarna. Það er stærsti innblásturinn.
Hvað er þitt besta ráð til að næra andlega heilsu?
Ég gef ekki ráð. En ég get sagt frá því hvernig hentar mér best að næra mína andlegu heilsu. Það er hreyfing, hollur og hreinn matur og hugleiðsla - þetta er hin heilaga þrenning - á hverjum degi (sem ég næ alls ekki alltaf). Ég skrifa líka mikið í dagbók og ígrunda. Svo er það líka stundum einvera og stundum að hitta vini.
Náttúran og hundarnir mínir eru mjög mikilvægur þáttur í mínu lífi fyrir jarðtengingu sem ég þarf oft að vinna í að ná.
Hvernig er hefðbundinn dagur í þínu lífi?
Haha ég á enga hefbundna daga! En ef ég næ að hreyfa mig, leika við hundana og hugleiða, helst allt fyrir klukkan ellefu á morgnana, þá verður dagurinn alltaf frábær í sköpun og leik.
Uppáhalds lag og af hverju?
Úff sko fyrir utan öll lögin sem ég syng í söngleiknum mínum sem eru eftir Axel Inga þá verð ég að nefna John Grant. Eitt af mínum uppáhalds með honum er Sigourney Weaver af Queen of Denmark plötunni. Röddin hans er eins sú fallegasta og svo er lagið svo angurvært og húmorískt. Og þvílíkur texti!
Uppáhalds matur og af hverju?
Þar sem ég er vegan þá verð ég að nefna Junkyard borgarann! Hann er eitthvað annað. Svo er ofnbakað marinerað og kryddað blómkál eitt af því sem ég elska!
Besta ráð sem þú hefur fengið?
Að sleppa tökunum og treysta.
Hvað er það skemmtilegasta við lífið?
Þegar ég læri eitthvað nýtt um sjálfan mig. Svo náttúrulega að eiga skemmtilega stund og hláturskast með mínu nánasta fólki. Það er fátt betra.