Innlent

Þrír fluttir slasaðir frá gos­stöðvunum í nótt

Árni Sæberg skrifar
Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína að eldgosinu í Meradölum. Lögreglan áréttar að mikilvægt sé að fara varlega.
Mikill fjöldi fólks hefur lagt leið sína að eldgosinu í Meradölum. Lögreglan áréttar að mikilvægt sé að fara varlega. Vísir/Vilhelm

Þrír voru fluttir slasaðir frá gosstöðvunum í Meradölum í nótt en Lögreglan á Suðurnesjum áætlar að þar hafi verið á bilinu sjötíu til áttatíu manns á fjórða tímanum.

Í fréttatilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum segir að gönguleiðin að gosstöðvunum reynist mörgum erfið og að flytja hafi þurft einn sem snúið hafði sig á ökkla, annan sem fann til í fæti og þriðja sem hrasað hafði í hrauni.

„Björgunarsveitarmenn sem stóðu vaktina í nótt segja að margir hafi ekki verið vel búnir til ferðalaga og eins margir án höfuðljósa,“ segir í tilkynningu.

Þá bendir lögreglan á gönguleið sem björgunarveitin Þorbjörn hefur lýst á Facebook-síðu sinni.

Gengið vel þrátt fyrir fjölmenni 

Lögreglan segir að þrátt fyrir margmenni við eldgosið í gær megi segja gengið hafi vel. Áætlað sé að á annað þúsund göngumanna hafi sótt gosið heim í gær.

„Mikilvægt að hafa í huga að gossvæðið er hættulegt svæði þar sem aðstæður geta breyst skyndilega. Lögregla varar fólk við að dvelja nálægt gosstöðvunum vegna gasmengunar. Hætta eykst þegar vind lægir. Þá geta lífshættulegar gastegundir safnast í dældum og geta reynst banvænar. Nýjar gossprungur geta opnast með litlum fyrirvara og glóandi hraun getur fallið úr hraunjaðri og hröð og skyndileg framhlaup orðið þar sem nýjar hrauntungur brjótast fram sem erfitt getur verið að forðast á hlaupum,“ segir í tilkynningu.

Þá áréttar lögreglan að bílum skuli lagt á merktum stæðum en ekki í vegkanti Suðurstrandarvegar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×