Innlent

Þróun eld­gossins komi ekki á ó­vart

Eiður Þór Árnason skrifar
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, flaug yfir gossvæðið í dag á vegum Jarðvísindastofnunar HÍ. 
Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, flaug yfir gossvæðið í dag á vegum Jarðvísindastofnunar HÍ.  Vísir/Arnar

Töluvert hefur dregið úr hraunflæðinu úr eldstöðvunum í Meradölum frá því í gær og mældist meðalrennsli frá klukkan 17 í gær fram til 11 í morgun 18 rúmmetrar á sekúndu. Til samanburðar var meðalrennsli 32 rúmmetrar á sekúndu fyrstu þrjá tímana eftir að gosið hófst í gær. Á sama tíma hefur sprungan styst úr 300 metrum í um það bil 100 metra.

Þetta sýna niðurstöður annarrar flugmælingar sem sérfræðingar frá Landmælingum Íslands, Náttúrufræðistofnun og Jarðvísindastofnun framkvæmdu fyrir hádegi í dag. 

Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, segir þessar niðurstöður ekki koma á óvart þar sem flest eldgos séu kraftmest í upphafi og síðan dragi úr. Svo var þó ekki raunin í fyrra þegar hraunrennslið í Geldingadölum náði hámarki um tveimur mánuðum eftir að gosið hófst í marsmánuði.

Á myndinni má sjá ummál nýja hraunsins um klukkan 17 í gær og svo 11 í morgun.Jarðvísindastofnun

Aftur verður reynt að leggja mat á hraunflæðið á morgun ef skyggni leyfir. Magnús Tumi segir gosið vera frekar afllítið en óljóst sé hvernig það muni haga sér næstu daga. Ekki sé skýrt hvort þrýstingur neðanjarðar fari vaxandi eða minnkandi og það skýrist á næstu dögum. Þá sé ekki útilokað að gossprungan eigi eftir að lengjast til norðurs.

Hraunflæðismælingarnar byggja á loftmyndum sem teknar voru með Hasselblad myndvél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélags Reykjavíkur. Gerð voru landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við mælinguna sem gerð var í gær klukkan 17:05. Hraunið mældist um 144.000 fermetrar klukkan 11 í morgun og var meðalþykktin 11,1 metri. Rúmmálið var 1,60 milljón rúmmetrar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.