Innlent

Jarðskjálftarnir færast nær yfirborðinu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Jarðskjálftamælir á Reykjanesskaga.
Jarðskjálftamælir á Reykjanesskaga. Vísir/Vilhelm

Jarðskjálftarnir sem riðið hafa yfir á Reykjanesi í dag mælast nú á minna dýpi en skjálftar gærdagsins. Sérfræðingur segir það merki um að kvika gæti verið að færast nær yfirborðinu. 

Ekkert lát hefur verið á jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga, en frá miðnætti hafa sautján skjálftar yfir þrír að stærð orðið á svæðinu. Sá stærsti mældist 4,2 og varð klukkan sex mínútur yfir fjögur í nótt, þrjá kílómetra aust-norðaustur af Fagradalsfjalli.

Skjálftar gærdagsins voru að mælast á um fimm til sjö kílómetra dýpi.

„Það virðist vera að skjálftarnir hafi heldur grynnkað og séu nú að mælast á um tveggja til fjögurra kílómetra dýpi, flestir af þessum stærri skjálftum sem við höfum verið að mæla,“ segir Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur í samtali við fréttastofu.

Er það merki um að kvika sé að færast nær yfirborðinu, hvernig má lesa í það? 

„Já, það má túlka það á þann hátt að þetta kvikuhlaup sem er þarna neðanjarðar sé mögulega komið hærra upp í jarðskorpunni og sé núna mögulega á þessu tveggja til fjögurra kílómetra dýpi. GPS-mælingar okkar á svæðinu gefa til kynna að líklega er þetta kvikuinnskot sem er þarna á tveggja til fjögurra kílómetra dýpi. Skjálftavirknin heldur bara áfram og kemur bara í hviðum á meðan að þetta kvikuinnskot er að finna sér einhvern farveg þarna undir jarðskorpunni.“

Veðurstofunni hafa borist margar tilkynningar frá fólki sem fylgst hefur með vefmyndavélum á svæðinu, sem telur sig hafa séð ýmislegt, til að mynda reyk, eða jafnvel kviku.

„Mögulega er einhver hiti þarna í hrauninu og það gæti hafa verið einhver uppgufun í nótt. Ég var nú ekki hérna sjálfur í nótt og sá ekki þessar myndir, en það er allavega ekki kvika að flæða á yfirborðinu,“ segir Einar. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×