Fótbolti

Hope Solo gengst við ásökunum um að hafa keyrt drukkin með börnin í bílnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hope Solo var handtekin í lok mars, sofandi undir stýri með tviburasyni sína í bílnum.
Hope Solo var handtekin í lok mars, sofandi undir stýri með tviburasyni sína í bílnum. Jason Miller/Getty Images

Hope Solo, fyrrum markvörður bandaríska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur gengist við þeim ásökunum að hún hefi ekið undir áhrifum með börnin sín í bílnum.

Þessi fertuga fyrrum landsliðskona var handtekin í lok mars á þessu ári fyrir utan verslunarmiðstöð í Winston-Salem, Norður-Karólínu. Solo var þá sofandi undir stýri, en í aftursæti bílsins sátu tveggja ára tvíburasynir hennar.

Hún var ákærð fyrir að keyra undir áhrifum áfengis, streitast gegn handtöku og vanrækslu gagnvart börnum sínum.

Kærur á hendur Solo sem snéru að því að streitast gegn handtöku og vanrækslu gagnvart börnum sínum voru þó látnar niður falla. Ásamt því að játa því að hafa keyrt undir áhrifum með börnin í bílnum sagði Solo þó að hún væri á batavegi.

„Þetta er búinn að vera langur vegur en ég er hægt og bítandi að koma til,“ sagði Solo.

„Ég er stolt af móðurhlutverkinu og því sem ég og eiginmaður minn höfum gert alla daga seinustu tvö ár í gegnum heimsfaraldurinn með tveggja ára tvíbura.“

„Þó ég sé stolt af okkur þá hefur þetta verið ótrúlega erfitt og ég gerði risastór mistök. Klárlega verstu mistök ævi minnar. Ég geri mér grein fyrir því hversu skemmandi áhrif áfengi hefur haft.“

„Það jákvæða við að gera svona stór mistök er að maður lærir af þeim um leið. Að læra af þessum mistökum hefur verið erfitt, og á tímum, sársaukafullt,“ sagði Solo að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×