Innlent

Leti frekar en kóróna­veiru um að kenna

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Skipuleggjendur komu ekki saman í ár til að skipuleggja Evrópumótið í Mýrarbolta.
Skipuleggjendur komu ekki saman í ár til að skipuleggja Evrópumótið í Mýrarbolta. vísir/hafþór

Mýrarboltinn á Ísafirði verður ekki haldinn í ár um verslunarmannahelgina þar sem forsvarsmenn hátíðarinnar hittust ekki til að leggja á ráðin og skipuleggja hátíðina í tæka tíð. Faraldri kórónaveiru var upphaflega kennt um.

Greint var frá því í vikunni að Mýrarboltinn hafi verið blásinn af vegna Covid-19 sjúkdómsins. Í kjölfarið var Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir inntur eftir svörum um hvort tilefni væri til að aflýsa hátíðum um verslunarmannahelgina vegna faraldursins.

Sjá einnig: Segir ekki til­efni til að blása af úti­há­tíðir um Verslunar­manna­helgina

Sóttvarnalæknir svaraði því til að ekki sé tilefni til að blása af útihátíðir og aðrar samkomur vegna kórónuveirunnar. Um þrjú hundruð greinast nú dag hvern, í miklum meirihluta eldri borgarar. „Auðvitað getur það orðið við svona stórar samkomur að það verði smit en vel að merkja að þessi smit sem við höfum mestar áhyggjur af eru hjá eldra fólki,“ sagði Þórólfur.

Enn í leti

Jóhann Bæring Gunnarsson, aðalritari Mýrarboltans og sómi Ísafjarðar, eins og það er orðað á vefsíðu Mýrarboltans, segir í samtali við fréttastofu að mótshaldarar hafi í raun ekki hist til þess að undirbúa hátíðina í ár.

Jóhann Bæring Gunnarsson.framsókn

„Það er óbein afleiðing kórónaveirunnar,“ segir Jóhann. „Við í rauninni tókum frekar þá ákvörðun að halda gott mót að ári þar sem við erum gjörsamlega óundirbúnir.“

Þannig ástæðan fyrir aflýsingu var í rauninni að þið komuð ekkert saman til að skipuleggja?

„Já, leggja á ráðin og setja upp planið þannig við vorum enn þá bara í leti, eða hvað ég á að segja, enn í einangrun,“ segir Jóhann í léttum tón.

„Þetta er ekkert dýpra en það, en ég ætla ekkert að vekja eitthvað panik meðal þjóðarinnar um að það sé að koma ný covid bylgja yfir landann. En það er samt bylgja í samfélaginu, þó búið að bólusetja flesta.“

Jóhann ítrekar að lokum að stefnt sé að því að halda veglegt mýrarboltamót að ári.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um Mýrarboltann árið 2014:


Tengdar fréttir

Fékk svartan hauspoka fyrir

Áslaug Arna er einn keppanda í Mýrarboltanum á Ísafirði sem stendur sem hæst núna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×