Innlent

Vel gert hjá flug­manninum að koma vélinni niður

Bjarki Sigurðsson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Flugmaður vélarinnar fann góðan stað ofan á Nýjabæjarfjalli til að lenda á.
Flugmaður vélarinnar fann góðan stað ofan á Nýjabæjarfjalli til að lenda á. Landhelgisgæslan

Mikil heppni var að flugmaður flugvélar sem nauðlenti á Nýjabæjarfjalli í gær hafi fundið svo góðan stað til að lenda. Flugmaðurinn og farþeginn sluppu báðir með skrekkinn en þyrla Landhelgisgæslunnar kom þeim til aðstoðar þar sem þeir lentu í þúsund metra hæð.

Útkall barst þyrlusveit Landhelgisgæslunnar klukkan korter yfir sjöí gærkvöldi. Þá var ljóst að flugvél af gerðinni ICP Savannah S hefði nauðlent skammt frá Akureyri en flugmanni vélarinnar hafði tekist að koma út neyðarkalli sem farþegavél á leið til Akureyrar nam.

„Strax eftir flugtak eða í útkallinu þá er ljóst að mennirnir eru ómeiddir og þeir komust út að sjálfsdáðum,“ segir Magnús Pálmar Jónsson, sigmaður hjá Landhelgisgæslunni, í samtali við fréttastofu.

Flugvélinni hafði verið nauðlent á Nýjabæjarfjalli sem er í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá Akureyri og átta kílómetrum frá næsta vegslóða.

„Það var ljóst miðað við staðsetninguna að þetta væri í þúsund metra hæð og yrði erfitt fyrir fólk að fara að ganga fjallið eða eitthvað slíkt, þannig að við héldum áfram á staðinn,“ segir Magnús.

Aðkoman að flugvélinni hafi verið fín og góður lendingastaður fyrir þyrluna.

„Við lentum þarna skammt frá flugvélinni og röltum til þeirra og sáum strax að þeir voru standandi og hressir.“

Þeir voru ekkert skelkaðir eftir þetta?

„Örugglega eitthvað andlegt áfall en ekkert líkamlegt og bara litu vel út,“ segir Magnús.

Mikil mildi hafi verið að flugmaðurinn hafi fundið svo góðan lendingarstað.

„Þetta lítur út fyrir að hafa verið vel gert að koma henni þarna niður og finna þennan stað til að lenda á. Þetta var nokkuð slétt þar sem hún nauðlendir og í kring voru smá hækkanir og snjóbreiður.“


Tengdar fréttir

Flug­vél nauð­lenti í Tungudal

Lítil flugvél nauðlenti í um tuttugu mínútna fjarlægð frá Akureyrarflugvelli í kringum sjöleitið í kvöld. Tveir voru um borð og eru þeir báðir óslasaðir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×