Innlent

Segir fá­sinnu að stuðningur við raf­bíla sé ó­hag­kvæmur

Árni Sæberg skrifar
Tómas Kristjánsson er formaður Rafbílasambands Íslands.
Tómas Kristjánsson er formaður Rafbílasambands Íslands. Aðsend

Formaður rafbílasambands segir mikið af ranghugmyndum í nýrri skýrslu Hagfræðistofnunar um hagkvæmni loftslagsaðgerða. Stofnunin gefi sér mikið af röngum forsendum og algjör fásinna sé að skella loftslagsskuldinni á rafbíla.

Tómas Kristjánsson er formaður Rafbílasambands Íslands og hann er ekki sáttur með þá mynd sem teiknuð er upp í skýrslu Hagfræðistofnunar. Í skýrslunni segir að stuðningur við kaup á rafbílum sé langóhagkvæmasta loftslagsaðgerðin sem íslensk stjórnvöld hafa ráðist í.

Það sem hann segir athyglisverðast sé sú aðferð sem Hagfræðistofnun beitir til að reikna kostnað við stuðning við rafbíla. „Þeir eru þarna með töflu í skýrslunni yfir niðurfellingu á virðisaukaskatti. Niðurfelling á virðisaukaskatti er náttúrulega ekki ríkið að setja pening í eitthvað heldur bara ríkið að verða af tekjum. Það er grundvallarmunur á því,“ segir Tómas.

Þá gagnrýnir hann að gert sé ráð fyrir fullri niðurfellingu virðisaukaskatts til ársins 2030, sem enginn sé að tala um. „Núverandi aðgerðir eru upp í tuttugu þúsund bíl, sem verður trúlega um mitt ár 2023,“ segir Tómas.

Hann segir að Rafbílasambandið geri ekki ráð fyrir því að virðisaukaskattur verði felldur niður lengi. Eðlilegt sé að það sé gert á meðan rafbílar eru dýrari en sambærilegir bílar sem knúnir eru af jarðefnaeldsneyti. Gert sé ráð fyrir að rafbílar verði orðnir helmingi ódýrari en aðrir bílar árið 2030 og því sé rangt að reikna með niðurfellingu svo lengi.

Í skýrslunni segir að niðurfelling viðrisaukaskatts muni kosta ríkið 34,2 milljarða króna árið 2030. Því sé hægt að leiðrétta allan hallann af stuðningi við rafbíla og gott betur séu árin 2029 og 2030 tekin út. Hallinn færi þá úr 38 milljörðum í 28 milljarða króna hagnað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×