Innlent

Dómsmálaráðherra segir ummæli vararíkissaksóknara slá sig illa

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist hafa ákveðna vanþóknun á þeim ummælum sem vararíkissaksóknari lét falla um hinsegin hælisleitendur á samfélagsmiðlum í gær.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segist hafa ákveðna vanþóknun á þeim ummælum sem vararíkissaksóknari lét falla um hinsegin hælisleitendur á samfélagsmiðlum í gær. Vísir/vilhelm

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir ummæli Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara um hinsegin hælisleitendur slá sig illa. Það sé ekki undir honum komið að ákveða hvort ummælin séu tilefni til áminningar.

„Þetta slær mig illa og ég vil bara árétta það að ákærendur og öllum opinberum starfsmönnum ber að rækja starf sitt af alúð og samviskusemi í hvívetna og forðast að hafa nokkuð það að í starfi sínu eða utan þess sem er honum til vanvirðu eða getur varpað rýrð á það starf eða starfsgrein sem það vinnur við,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við fréttastofu. 

Helgi Magnús vararíkissaksóknari deildi í gærkvöldi viðtali á Facebook-síðu sinni, sem birtist í kvöldfréttum Stöðvar 2, við Helga Þorsteinsson Silva lögmann, sem sagði frá því að stjórnvöld hafi sakað skjólstæðing hans um að ljúga til um kynhneigð sína og hafnað honum hæli. Héraðsdómur sneri ákvörðun útlendingastofnunar við á þeim grundvelli að sannað taldist að maðurinn væri samkynhneigður. 

Helgi Magnús skrifaði við deilinguna að „auðvitað ljúgi hælisleitendur.“ Þá spurði hann hvort einhver skortur væri á hommum á Íslandi. Helgi sagði jafnframt í samtali við fréttastofu í dag að hann hafi ekki verið að gera athugasemdir við málið sjálft heldur almennt. Þá þætti honum vænt um samkynhneiigða og hefði aldrei haft neitt á móti þeim. 

Dómsmálaráðherra bendir á að ríkissaksóknari hafi gefið út sérstakar siðareglur sem gildi um ákærendur í landinu. 

„Í þeim segir að framganga þeirra utan starfs megi ekki vera til þess að rýra traust ákæruvaldsins. Mitt mat er að mikilvægt sé að ákærendur standi undir virðingu og trausti almennings,“ segir Jón. 

Er tilefni til áminningar í þessu máli?

„Það er í raun eins og ég vísa til, það er ríkissaksóknari sem fer með stjórnvaldsábyrgð í þessu máli og ég hef ekki haft neina stöðu eða ástæðu til þess að eiga samtal við hana. Það er best að hún svari því hvaða skref hún hyggst taka en ég hef ákveðna vanþóknun á þessu og framgöngu vararíkissaksóknara og hún slær mig ekki vel.“


Tengdar fréttir

Helgi segir sér þyki vænt um sam­kyn­hneigða og hafi aldrei haft neitt á móti þeim

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari segir að sér þyki vænt um samkynhneigða og hann hafi aldrei haft neitt á móti þeim. Það megi þó ekki gera ráð fyrir að hælisleitendur, sem segist samkynhneigðir, segi satt til um það. Formaður Samtakanna 78 segir ummæli Helga skýrt merki um að fordómar séu til staðar innan kerfisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.