Rauð hita viðvörun hefur verið í gildi á stóru svæði í Bretlandi frá því í gær en í dag fór hitinn hæst í 40,3 gráður í Coningsby.
Fyrra met var frá 2019 þegar hitinn fór í 38,7 gráður. Það met féll í mörgum borgum Bretlands í dag, eða á að minnsta kosti 34 stöðum samkvæmt upplýsingum frá bresku veðurstofunni.
„Þetta veðurfar er algjörlega fordæmalaust. Við höfum aldrei áður séð slíkar hitatölur í reiknilíkönum okkar,“ sagði Penelope Endersby, forstjóri Veðurstofu Bretlands, í morgun um stöðu mála.
Neyðarástandi var lýst yfir í og við Lundúni vegna eldsvoða í gróðri sem náði að læsa sig í íbúðabyggingar. Mikið álag hefur verið á slökkviliðsmönnum í allan dag og hafa yfirvöld biðlað til almennings að forðast það að tendra eld utandyra.
Here are the highest temperatures across the country today
— Met Office (@metoffice) July 19, 2022
At least 34 sites have exceeded the UK's previous national record of 38.7°C #heatwave2022 #heatwave pic.twitter.com/QwwfzLWZpc
Hitabylgjan hefur fært sig norður á bóginn eftir að hafa valdið gríðarlegu tjóni í suðvesturhluta Evrópu undanfarna viku. Rúmlega þúsund manns hafa látist í hitabylgjunni og þúsundir hafa þurft að flýja heimili sín.
Fleiri svæði lengra til norðurs eru sömuleiðis íaukinni hættu fyrir skógareldum. Í Belgíu, Hollandi, og Þýskalandi er gert ráð fyrir methita. Fjöldi skógarelda hafa logað dögum saman í Portúgal, á Spáni og víðar.

Petteri Taalas, framkvæmdastjóri Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, segir viðbúið aðhitamet muni halda áfram að falla þar sem ríki heims hafi ekki gripið til nægjanlegra aðgerða til að sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinganna.
„Ég vona að slíkir viðburðir veki ríkisstjórnir til umhugsunar,“ sagði hann. „Hitabylgjur sem þessar verða sífellt algengari á næstu áratugum. Neikvæð tilhneiging á sviði loftslagsmála heldur áfram til áranna eftir 2060 óháð árangri okkar við að sporna gegn áhrifum loftslagsbreytinga.“