Fótbolti

Sam Kerr fyrsta konan til að verða andlit FIFA

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Sam Kerr verður fyrsta konan til að vera andlit heimsútgáfu tölvuleiksins FIFA.
Sam Kerr verður fyrsta konan til að vera andlit heimsútgáfu tölvuleiksins FIFA. Ivan Yordanov/MI News/NurPhoto via Getty Images

Ástralska knattspyrnukonan Sam Kerr, leikmaður Chelsea, verður fyrsta konan til að verða andlit heimsútgáfu tölvuleiksins FIFA þegar FIFA 23 kemur út í haust.

Tölvuleikjaframleiðandinn EA Sports kynnti í gær nýjustu útgáfu leiksins. Í tilkynningunni kemur fram að Kerr muni vera andlit leiksins, ásamt frönsku stórstjörnunni Kylian Mbappé. Franski framherjinn er andlit leiksins þriðja árið í röð.

Þetta verður í fyrsta skipti sem kona verður andlit heimsútgáfu leiksins sem kom fyrst út árið 1993 og hét þá FIFA International Soccer, en síðan eru liðin tæp þrjátíu ár.

Þetta verður þó ekki í fyrsta skipti sem kona verður andlit leiksins. Árið 2016 var hin bandaríska Alex Morgan sem prýddi forsíðu leiksins í heimalandinu og Christine Sinclair, fyrirliði kanadíska landsliðsins, var á útgáfunni í Kanada.

Kerr átti frábært tímabil með Chelsea í ensku WSL-deildinni á seinasta tímabili þar sem liðið tryggði sér Englandsmeistaratitilinn og FA-bikarinn. Hún varð markahæsti leikmaður deildarinnar með 20 mörk í 22 leikjum, og var valin leikmaður tímabilsins af samtökum knattspyrnublaðamanna.

Þetta verður áttunda árið í röð þar sem hægt verður að spila með kvennaliðum í leiknum. Hingað til hefur þó aðeins verið hægt að spila með kvennalandslið, en líklegt þykir að enska WSL-deildin verði með í þessari útgáfu.

Þá verður þetta seinasta útgáfa FIFA-leiksins sem verður gefin út af EA Sports þar sem samningaviðræður tölvuleikjaframleiðandans við alþjóðaknattspyrnusambandið sigldu í strand í vor.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.