Erlent

Listaverkaspæjari segir frá því hvernig hann endurheimti blóð Krists

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þýfið verður afhent lögreglu í dag.
Þýfið verður afhent lögreglu í dag. Arthur Brand

Mikil sorg greip um sig meðal kaþólikka þegar gullnum kistli sem er sagður innihalda tvo dropa af blóði Jesú Krists var stolið úr skrúðhúsinu í Fécamp-klausturkirkjunni í Normandy. Kistillinn er nú kominn aftur í leitirnar, eftir að þjófurinn setti sig í samband við hollenskan listaverkaspæjara.

Þjófnaðurinn átti sér stað í júní, aðeins tveimur vikum áður en árleg hátíð átti að fara fram en pílagrímar hafa í þúsund ár lagt leið sína til Fécamp til að tilbiðja hið meinta blóð Krists.

„Í sjö til átta prósent tilvika er stolnum listmunum skilað og margir þeirra eru eyðilagðir. Í þessu tilviki held ég að þjófurinn hafi ekki haft hugmynd um hvað þetta var,“ segir Arthur Brand, sem ku vera þekktur fyrir leita uppi og endurheimta stolna dýrgripi.

Talið er að þjófurinn hafi verið læstur inni í skrúðhúsinu nóttina sem stuldurinn átti sér stað. Hann tók með sér kistilinn auk fjölda annarra muna.

Skömmu síðar barst Brand tölvupóstur þar sem sendandinn sagði að gripirnir hefðu verið geymdir á heimili vinar þjófsins. Þegar vinurinn komst að því hvað um ræddi setti hann sig í samband við tölvupóstsendandann, sem setti sig svo aftur í samband við Brand.

Brand stakk upp á því að viðkomandi skildi gripina eftir við útidyrnar hjá sér og hringdi bjöllunni.

„Tveimur dögum seinna, um klukkan 22.30, var bjöllunni hringt. Ég leit út af svölunum og sá box í myrkrinu. Ég hljóp niður tröppurnar, hræddur um að einhver myndi taka boxið. Fyrir utan leit ég í kringum mig en það var enginn þarna,“ segir Brand um það hvernig kistlinum var skilað.

Brand, sem er kaþólikki, sagðist hafa orðið fyrir trúarupplifun þegar hann opnaði kassann. Hann sagðist myndu afhenda lögreglu kistilinn og hún myndi koma honum aftur í réttar hendur.

Þess má til gamans geta að á samfélagsmiðlum eru sumir á því að Brand hafi sjálfur staðið fyrir þjófnaðnum, til að auglýsa sjálfan sig.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×