Richard Davidson er prófessor í sálfræði og geðlækningum við Wisconsin-Madison háskóla og stofnandi Miðstöðvar heilbrigðrar hugsunar við skólann (Center for Healthy Mind). Hann var útnefndur sem einn af hundrað áhrifamestu einstaklingum samtímans af Time tímaritinu árið 2006. Þá hefur hann um árabil verið í samstarfi við Dalai Lama, leiðtoga tíbeskra búddista.
Richard var með erindi á tíundu evrópsku ráðstefnunni um Jákvæða sálfræði sem er haldin í Hörpu þessa dagana en meðal þeirra sem standa að þeirri ráðstefnu er Landlæknisembættið. Hann benti þar á mikla þunglyndislyfjanotkun Íslendinga og hvernig mætti finna fleiri leiðir til að finna hamingjuna.
„Ég var undrandi að sjá að Íslendingar eru næstum heimsmeistarar í notkun þunglyndislyfja. Bandaríkjamenn nota þó meira en Íslendingar nota meira en aðra norrænar þjóðir eða Evrópa,“ segir Richard.
Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Landlækni voru tvær af hverjum tíu konum og einn af hverjum tíu körlum á SSRI þunglyndis-og kvíðalyfjum á síðasta ári en undanfarin áratug hefur orðið stöðug aukning á notkun slíkra lyfja.

Richard Davidson segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um fleiri leiðir til að fást við þunglyndi-og eða kvíða.
„Ég hef ekkert á móti því að lyf séu notuð en ég held að þau séu ofnotuð. Það eru til aðrar leiðir til að ná hamingju og vellíðan en lyf. Leiðir sem geta jafnvel virkað betur en þau,“ segir Richard.
Hann bendir á að það að þjálfa sig í núvitund eða hugleiðslu, njóta samskipta við aðrar manneskjur, hafa innsýn í eigin huga og finna tilgang í því sem verið sé að gera geti haft afar jákvæð áhrif á andlega heilsu . Það þurfi ekki að taka frá langan tíma daglega til að gera afdrifaríkar breytingar, jafnvel á heilanum með hugleiðslu.
„Rannsóknir sýna að það þarf ekki að hugleiða meira en fimm mínútur á dag til að miklar breytingar verði á vellíðan fólks og jafnvel breytingar í heilanum,“ segir Richard að lokum.