Innlent

Arnar vísar að­dróttunum um fjár­kúgun á bug

Árni Sæberg skrifar
Arnar Grant.
Arnar Grant.

Arnar Grant segir kæru Ara Edwald, Hreggviðs Jónssonar og Þórðar Más Jóhannessonar á hendur honum og Vítalíu Lazarevu vera fráleita tilraun til að afvegaleiða umræðu um málið.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Ari Edwald, Hreggviður Jónsson og Þórður Már Jóhannesson hafi kært Vítalíu Lazarevu og Arnar Grant til héraðssaksóknara fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Arnar Grant neitar þessum ásökunum í yfirlýsingu sem hann sendi fréttastofu.

„Að gefnu tilefni:

Ég vísa á bug aðdróttunum þar sem reynt er að bendla mig við fjárkúgun í tengslum við kynferðisafbrotamál. Þetta er fráleit tilraun til að afvegaleiða umræðuna og draga úr trúverðugleika mínum sem lykilvitni í málinu,“ segir Arnar Grant.

Lögmaður Þórðar Más Jóhannessonar, eins þeirra sem Vítalía Lazareva hefur sakað um kynferðisbrot gegn sér, segir að engin kæra liggi fyrir í málinu, þvert á yfirlýsingar Vítalíu. Þeir þrír sem Vítalía sakaði um að hafa brotið gegn henni í sumarbústað í október 2020 hafa nú kært Vítalíu og Arnar Grant fyrir tilraun til fjárkúgunar.

Mál Vítalíu komst fyrst í kastljósið í janúar eftir að viðtal Eddu Falak við hana í hlaðvarpinu Eigin konur birtist. Þar lýsti Vítalía því að hafa orðið fyrir ofbeldi af hendi þriggja eldri karlmanna í sumarbústaðarferð, sem hún hafði mætt í til að hitta þáverandi ástmann sinn, Arnar Grant. Arnar hefur sagst munu bera vitni í málinu ef til þess kemur að Vítalía kæri.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×