Innlent

Segir mikilvægt í huga albönsku konunnar að engin önnur lendi í því sama

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Claudia Wilson er lögmaður albönsku konunnar.
Claudia Wilson er lögmaður albönsku konunnar.

Albönsk kona sem vísað var úr landi á níunda mánuði meðgöngu er létt yfir því að hafa fengið viðurkenningu frá íslenska ríkinu að á réttindum hennar hafi verið brotið.

Þetta segir Claudia Ashanie Wilson, lögmaður albönsku konunnar, en Claudia ræddi við hana í gær. Hún segir að það sé afar mikilvægt í huga albönsku konunnar að tryggja að engin önnur kona verði fyrir því misrétti og óréttlæti sem hún varð fyrir þar sem lífi og heilsu hennar sem og ófædds barns hennar hafi verið stefnt í hættu.

„Þetta atvik verður vonandi til þess að vekja íslensk stjórnvöld til umhugsunar og tryggja mannúðlega meðferð þeirra einstaklinga sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi. Við virðumst gleyma því stundum að hér er um að ræða fólk, einstaklinga eins og okkur, sem eru í mikilli neyð.“ segir Claudia.

Sátt náðist í málinu á dögunum. Ríkið viðurkenndi skaðabótaskyldu og greiddi albönsku konunni miskabætur.

„Mál þetta hefur verið mikið til umfjöllunar í samfélaginu og eins og kunnugt er þá komst embætti landlæknis að þeirri niðurstöðu í júní í fyrra að trúnaðarlæknir Útlendingastofnunar hafi brotið lög með útgáfu læknisvottorðs um flugfærni umbjóðanda míns sem var þá gengin 36 vikur með barn sitt.“

Landlæknisembættið taldi að umræddur læknir hefði brotið m.a. gegn lögum um heilbrigðisstarfsmenn og lögum um réttindi sjúklinga þegar albanska konan var send í 19 klukkutíma flug til Albaníu.

„Að mati embættisins hefði læknirinn átt m.a. að vísa umbjóðanda mínum til sérfræðilæknis, þá fæðingar-og kvensjúkdómalæknis, sem hefði verið fær um að meta flugfærni hennar og sérstaklega í ljósi fyrrum heilsufarssögu.“

Fréttastofa náði tali af albönsku konunni í nóvember 2019. Í viðtalinu sagðist hún óttast um fjölskyldu sína og ófætt barn sitt.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×