Innlent

Ríkið greiðir óléttu konunni sem var vísað úr landi bætur

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Myndin var tekin af konunni áður en henni var vísað úr landi.
Myndin var tekin af konunni áður en henni var vísað úr landi. Mynd/No borders

Íslenska ríkið hefur viðurkennt bótaskyldu í máli albanskrar konu sem var vísað úr landi á níunda mánuði meðgöngu. Þetta staðfestir lögmaður konunnar í samtali við fréttastofu.

Konunni var ásamt fjölskyldu sinni vísað úr landi í nóvember 2019 þegar hún var gengin 36 vikur á leið þrátt fyrir að vera með vottorð frá Landspítalanum um að hún væri með stoðkerfisverki og ætti erfitt með langt flug. 

Brottvísuninni var harðlega mótmælt og gerði landlæknisembættið í kjölfarið alvarlegar athugasemdir við hvernig staðið var að útgáfu vottorðs sem var forsenda þess að konan var send úr landi. Þar sagði meðal annars að læknir hafi ekki mátt gefa út vottorð um flugfærni konunnar án skoðunar.

Fæddi barnið nokkrum dögum síðar

Í samtali við fréttastofu staðfestir Claudia Ashonie Wilson, lögmaður hennar, að sátt hafi náðst í málinu á dögunum og að ríkið hafi viðurkennt bótaskyldu sína. Ekki fékkst upp gefið hversu háar bæturnar verða greiddar.

Samtökin Réttur barna á flótta sem hafa ásamt No Borders og Solaris unnið að máli konunnar greindu frá niðurstöðunni á Facebook og segja að brottvísunin hafi reynt gríðarlega á hana.

„Á því átakanlega, tæplega 20 klukkustunda ferðalagi sem lagt var á konuna var henni bannað að tjá sig við starfsfólk flugstöðva og flugvéla. Hún mátti ekki á neinn hátt útskýra stöðu sína. Lögreglan í Albaníu tók á móti þeim þegar þangað var komið og voru þau í haldi hennar þar til konan var lögð inn á spítala og barn hennar fæddist nokkrum dögum síðar.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×