Innlent

Unnið að frið­lýsingu Fjaðrár­gljúfurs

Atli Ísleifsson skrifar
Fjaðrárgljúfur hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna undanfarin ár.
Fjaðrárgljúfur hefur notið mikilla vinsælda meðal ferðamanna undanfarin ár. UNSPLASH/MARTIN SANCHEZ

Unnið verður að friðlýsingu Fjaðrárgljúfurs eftir að jörðin Heiði skipti um eigendur.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu þar sem segir að Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og kaupandi jarðarinnar Heiði í Skaftárhreppi hafi gert með sér samkomulag sem kveður á um að ráðuneytið falli frá forkaupsrétti jarðarinnar nú, en að kaupandinn lýsi sig samþykkan því að vinna að friðlýsingu svæðisins enda telja aðilar hagsmunum gljúfursins best borgið með friðlýsingu.

Í tilkynningunni segir ennfremur að í apríl hafi ráðuneytinu borist erindi þar sem óskað var efstir afstöðu ríkissjóðs til nýtingar forkaupsréttar vegna sölunnar á Heiði en hluti Fjaðrárgljúfurs, sem er á náttúruminjaskrá, er innan jarðarinnar.

Ráðuneytið mat það svo að verndarþörf á svæðinu sé talsverð vegna mikils ágangs ferðamanna en hægt sé að ná markmiðum verndar án þess að ríkið gangi inn í kaupin. Það á að gera með friðlýsingu svæðisins og samkomulagi við nýjan eiganda þannig að vernd svæðisins og nauðsynleg uppbygging verði sameiginlegt verkefni ríkisins og nýs eiganda.

Þá segir að innheimta gjalda skuli ekki verða til þess að skerða eða tálma frjálsa för einstaklinga, sem ekki nýta bílastæðið um hið friðlýsta svæði, eða grannsvæði þess samkvæmt reglum náttúruverndarlaga um almannarétt.

Innheimta renni til uppbyggingar

Innheimta og ráðstöfun gjalda sem tekin kunna að verða vegna lagningu vélknúinna farartækja skulu alfarið renna til uppbyggingar þjónustu, reksturs og innviða fyrir þá sem ferðast um svæðið. Eigendur annarra jarða sem Fjaðrárgljúfur er hluti af hafa einnig lýst sig viljuga til að vinna að friðlýsingu gljúfursins.

Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni umhverfisráðherra að það sé ánægjulegt að samkomulag hafi náðst við kaupanda Fjaðrárgljúfurs um vernd svæðisins og eðlilegt að ríkið og eigendur standi saman að uppbyggingu þessarar náttúruperlu sem ferðamenn njóta þess að heimsækja.

Áfram forkaupsréttur

Forkaupsréttur ríkisins hvílir áfram á jörðinni komi hún aftur til eigendaskipta.

Gljúfrið er afar vinsæll ferðamannastaður sem sló í gegn eftir að poppstjarnan Justin Bieber heimsótti það og tók þar upp tónlistarmyndband.

Gljúfrið er hluti af jörðinni Heiði og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hljóðar samþykkt kauptilboð einkaaðilans upp á 300 til 350 milljónir króna.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.