Innlent

Baldur kominn í höfn: „Þetta fór blessunarlega vel“

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Aðsend mynd af Baldri kl 13:30, tekið úr Súgandisey. Björgunarskipið Björg frá Rifi aðstoðaði við að koma Baldri aftur að höfn.
Aðsend mynd af Baldri kl 13:30, tekið úr Súgandisey. Björgunarskipið Björg frá Rifi aðstoðaði við að koma Baldri aftur að höfn. aðsend

Búið er að binda ferjuna Baldur við Stykkishólmshöfn, samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni.  Ferjan varð aflvana norður af Stykkishólmi í morgun, eða um 300 metra frá landi.

Samkvæmt Ásgrími Ásgrímssyni, framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, komst Baldur að ferjubryggju á eigin vélarafli og með aðstoð björgunarskipsins Bjargar frá Rifi.

„Þannig að þeir eru nú komnir í öruggt skjól og mannskapurinn í land og allar aðrar einingar hafa verið kallaðar af svæðinu. Þetta fór því blessunarlega bara vel,“ segir Ásgrímur í samtali við fréttastofu.

Melding frá Baldri um vélarbilun barst landhelgisgæslunni um hálf tíu í morgun.

„Þeir létu akkerið fara og það hélt. Mér skilst að þeir hafi ekki getað kúplað saman þannig að skrúfan færi að snúast. Svo komst það í lag en þá áttu þeir í vandræðum með að ná akkerinu upp. Eftir að ná akkerinu upp náðu þeir ekki upp mikilli ferð á skipið og þar af leiðandi voru stjórntökin takmörkuð.“

Björgunarskipið Björg frá Rifi var því fengið til að fara utan á Baldur til að aðstoða með stjórntökin. Ásgrímur segir æfingar á Björgu hafa tekið nokkurn tíma fyrir utan Stykkishólm.

„Á meðan héldum við öllum öðrum viðbrögðum í gangi, þyrlan var klár, varðskipið Þór var á leiðinni vestur, Björgunarsveitin í landi og aðgerðarstjórnin á Snæfellsnesi. Þetta var allt klárt og við léttum þessu ekki fyrr en skipið var bundið við bryggju í Stykkishólmi.“

Baldur hafi verið bundinn við bryggju klukkan 15:07.


Tengdar fréttir

Ferjan Baldur vélarvana með 111 um borð

Farþegaferjan Baldur er vélarvana á Breiðafirði um 300 metra frá landi með 111 um borð. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni á staðinn og verður þar til taks.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.