Innlent

Fær 19 milljónir vegna ellefu mánaða gæslu­varð­halds að ó­sekju

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Landsréttur birti dóminn síðdegis í dag.
Landsréttur birti dóminn síðdegis í dag. Vísir/Vilhelm

Íslenska ríkinu var í dag gert að greiða nígerískum karlmanni 19 milljónir króna í miskabætur vegna frelsissviptingar er hann sætti í ellefu mánuði í tengslum við rekstur sakamáls sem lauk með tveggja mánaða fangelsisdómi.

Maðurinn var sakfelldur fyrir peningaþvætti af gáleysi en aðrir þrír Íslendingar höfðu í sama máli verið sakfelldir fyrir peningaþvætti af ásetningi og dæmdir til þyngri fangelsisrefsingar. Forsaga málsins er sú að óþekktur maður komst inn í tölvupóstssamskipti Nesfisks og suðurkóresks fyrirtækis og nýtti það til að fá suðurkóreska fyrirtækið að greiða andvirði fisks, sem hafði verið fluttur til Suður Kóreu, inn á vitlausan reikning. Nígeríski maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa af gáleysi nýtt sér ávinning þessarar millifærslu.

Miskabótakrafa mannsins byggði á því að hann hafi sætt gæsluvarðhaldi í 269 daga og farbanni í 57 daga að ósekju. Þá hafi hann að auki sætt hindrun við að komast úr landi í 15 daga eftir dóm héraðsdóms þar til honum var fylgt úr landi. Ekki var fallist á bætur vegna farbanns þar sem lögmætt hafi verið að takmarka för hans á meðan niðurstaða dómstóla í máli hans lá ekki fyrir.

Við ákvörðun bóta var vísað til ákvæða stjórnarskrár og sakamálalaga sem kveða á um að sakborningur verði ekki látinn sæta gæsluvarðhaldi lengur en sýnt þyki að fangelsisrefsing verði dæmd. Maðurinn hafi sætt gæsluvarðhaldi langt umfram efni og því sviptur frelsi að ósekju en íslenska ríkið var jafnframt talið bera ábyrgð á gæsluvarðhaldsvist sem maðurinn sætti á Ítalíu að beiðni íslenskra yfirvalda.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður gert íslenska ríkinu að greiða manninum 4,5 milljónir í bætur en sú fjárhæð miðaðist einungis við fimm mánaða gæsluvarðhald að ósekju og ekki miðað við gæsluvarðhaldið á Ítalíu. Landsréttur dæmdi ríkið hins vegar til að bæta manninum bæði þann tíma sem hann sætti gæsluvarðhaldi á Íslandi og Ítalíu þar sem maðurinn sætti gæsluvarðhaldi á meðan unnið var úr framsalskröfu ríkisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.