Innlent

Um 150 til 200 nú að greinast með Co­vid-19 dag­lega

Atli Ísleifsson skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur alla áttatíu ára og eldri, íbúa hjúkrunarheimila og alla sem hafa undirliggjandi áhættuþætti að þiggja fjórðu sprautu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hvetur alla áttatíu ára og eldri, íbúa hjúkrunarheimila og alla sem hafa undirliggjandi áhættuþætti að þiggja fjórðu sprautu. Vísir/Vilhelm

Undanfarna daga hefur tilfellum þeirra sem hafa greinst með Covid-19 verið að fjölga og greinast nú á milli 150 og tvö hundruð einstaklingar daglega hér á landi. Sömuleiðis hefur inniliggjandi með Covid-19 fjölgað á Landspítalanum síðustu daga en þar eru nú átta manns með sjúkdóminn og þar af einn á gjörgæslu.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir frá þessu á heimasíðu embættis landlæknis. Hann segir að tilfellum og dauðsföllum Covid-19 í heiminum hafi fækkað en hins vegar hafi sýnatökum einnig fækkað mikið. Enn sé yfirlýstur heimsfaraldur.

„Hérlendis hefur um helmingur íbúa greinst opinberlega með COVID-19 þó að líklegt sé að mun fleiri hafi smitast. Ekki hefur sést aukning á endursmitum.

Undanfarna daga hefur tilfellum verið að fjölga og greinast nú á milli 150–200 einstaklingar daglega. Þó hefur hlutfall jákvæðra sýna haldist stöðugt síðustu vikur um 7–10% en það segir til hve margir sem fara í próf greinast með sjúkdóminn. Þannig gæti aukning tilfella að hluta skýrst af aukningu tekinna sýna. Flest tilfelli sem greinast eru ómíkron afbrigðið BA.2 en einnig greinist afbrigðið BA.5.

Vart hefur verið við aukningu á komum sjúklinga í áhættuhópum með COVID-19 á göngudeild Landspítala til vökva- og lyfjagjafar og nú eru átta manns inniliggjandi með COVID-19, þar af einn á gjörgæslu,“ segir Þórólfur.

Fjórða sprautan

Sóttvarnalæknir hvetur sömuleiðis alla til að þiggja bólusetningu gegn Covid-19, en allir sextán ára og eldri ættu að vera búnir að fá þrjár sprautur.

„Allir 80 ára og eldri, allir íbúar hjúkrunarheimila og allir sem hafa undirliggjandi áhættuþætti ættu að þiggja fjórðu sprautu. Einnig geta aðrir sem vilja beðið um fjórðu sprautuna. Fjórðu sprautu má gefa fjórum mánuðum eftir þriðju sprautu en mælt er með að bíða í a.m.k. þrjá mánuði eftir COVID-19 sýkingu með að fara í bólusetningu. Rannsóknir hafa ítrekað sýnt ávinning af bólusetningu hvað varðar vörn gegn alvarlegum veikindum og dauða. Þá eru aukaverkanir bólusetningar mun minni en aukaverkanir og afleiðingar COVID-19 sjúkdómsins,“ segir Þórólfur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.