Innlent

Vill vægari kröfur um gæslu­varð­hald

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Halla Bergþóra vill fá að halda fólki lengur í gæsluvarðhaldi í svo flóknum málum sem þessum.
Halla Bergþóra vill fá að halda fólki lengur í gæsluvarðhaldi í svo flóknum málum sem þessum. vísir/vilhelm

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kallar eftir auknum heimildum lögreglu til að takast á við skipulagða brotastarfsemi, líkt og þá sem greint var frá í dag en lögregla lagði nýlega hald á mesta magn fíkniefna sem hún hefur gert á Íslandi í einu og sama máli. 

„Já, við höfum verið að tala um það að við gætum verið að miða okkar heimildir við það sem gerist annars staðar og það gæti hjálpað okkur mikið í þessum rann­sóknum,“ segir Halla Berg­þóra Björns­dóttir, lög­reglu­stjóri á höfuð­borgar­svæðinu.

„Því að þetta er mikil vinna við að vera að endur­nýja úr­skurði og fleira þannig að það gæti hjálpað.“

Og hvaða heimildir eru það sem þér finnst þið þurfa í málum sem þessum?

„Það er kannski lenging á gæslu­varð­haldinu, það er bara 12 vikur, og svo jafn­vel mætti skoða það að við þyrftum ekki að biðja um gæslu­varð­hald alveg strax. Að við gætum haldið fólki sér­stak­lega ef við erum með svona flóknar rann­sóknir,“ segir Halla Berg­þóra.

Stærsta fíkniefnamál Íslandssögunnar en aðeins brot af því sem er í umferð

Lögreglan boðaði til blaðamannafundar í dag til að fara yfir tvær rannsóknir sem hún hefur staðið að; annarri síðan árið 2020 en hinni í nokkra mánuði. Málin eru nátengd - í öðru þeirra var lagt hald á mesta magn fíkniefna í einu og sama málinu í sögu lögreglunnar. Í hinu var svo lagt hald á fimm kíló af amfetamíni til viðbótar, sem er talið koma frá hópnum í fyrri rannsókninni. Þar er einnig umfangsmikið peningaþvætti til rannsóknar. 

Lögreglan sagði á fundinum í dag að hóparnir stofnuðu löglegan rekstur til að þvætta peningana, oft í veitingabransanum eða í byggingariðnaðinum.

10 hafa verið handteknir vegna málanna tveggja, allt Íslendingar, og sitja þrír þeirra í gæsluvarðhaldi. Tengsl þessara mála og manna eru flókin og það er þetta flækjustig í skipulagðri glæpastarfsemi sem lögreglustjóranum finnst kalla á auknar heimildir lögreglu til að taka á þeim. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.