Innlent

Ný miðstöð fyrir úkraínska flóttamenn var opnuð á Aflagranda

Bjarki Sigurðsson og Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifa
Valgeir (t.v.) og Sveinn Rúnar ásamt Anastasiu sem kom hingað til lands fyrir einungis sjö dögum.
Valgeir (t.v.) og Sveinn Rúnar ásamt Anastasiu sem kom hingað til lands fyrir einungis sjö dögum. Vísir/Sigurjón

Í gær var ný miðstöð fyrir úkraínska flóttamenn opnuð á Aflagranda. Húsnæðið sem starfsemin var áður í er sprungið utan af starfseminni. Um 300 manns komu saman í nýja húsnæðinu í kvöld.

Miðstöðin er rekin af samtökunum Flottafólk en hún var áður staðsett í auglýsingastofunnar Pipar í Guðrúnartúni en ekki var lengur pláss þar fyrir alla sem vildu mæta. Hún var því færð á Aflagranda og var fjöldi fólks þar þegar fréttastofa kíkti í heimsókn. Eitt áttu flest allir sameiginlegt, að hafa bros á vör.

„Það var ekki svoleiðis þegar við byrjuðum á þessu, en þetta er grunnurinn á því sem við erum að gera, að fólk sé að hittast og styrkja hvort annað. Það versta sem fólk lendir í er að týna brosinu. Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að þessu,“ sagði Valgeir Magnússon, stjórnarformaður hjá Pipar.

Mun stærra húsnæði

Í gamla húsnæðinu voru allt að 200 manns að koma saman á kvöldin og húsnæðið margfalt minna en það nýja. Það var því kærkomið að komast í stærra húsnæði.

„Mér telst til að hér séu um 300 manns núna, við auglýstum þetta í gær. Fólk treystir því starfi sem við höfum verið að sinna því við höfum gert þetta með kærleik og gleði að leiðarljósi og mætingin er eftir því,“ segir Sveinn Rúnar Sigurðsson, læknir og forsvarsmaður Flottafólks.

Skemmtiatriði í kvöld

Í miðstöðinni verður boðið upp á læknisþjónustu, hannyrðir og aðra afþreyingu en í kvöld verða það leiklistin og tónlistin sem taka öll völd.

SYSTUR ætla að syngja Eurovision-lag sitt ásamt því að Anastasia Efimenko, úkraínskur flóttamaður sem kom hingað til lands fyrir viku síðan, mun syngja úkraínska þjóðsönginn fyrir gesti. Hún söng smá brot úr söngnum fyrir fréttamann Stöðvar 2.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×