Innlent

Fjóla er nýr bæjarstjóri í Árborg

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Fjóla Kristinsdóttir, nýr bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Árborg.
Fjóla Kristinsdóttir, nýr bæjarstjóri í Sveitarfélaginu Árborg. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Fjóla Kristinsdóttir er nýr bæjarstjóri Sveitarfélagsins Árborgar en hún verður fyrstu tvö ár kjörtímabilsins bæjarstjóri, eða þegar Bragi Bjarnason tekur við og klárar kjörtímabilið. Bragi var í fyrsta sæti á D-listanum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí og Fjóla í öðru sæti. Bragi verður formaður bæjarráðs fyrstu tvö árin og svo tekur Fjóla við tvö síðustu árin.

Helstu áherslur nýs hreins meirihluta D-listans voru kynntar á fundi í Tryggvagarði á Selfossi í dag. Þar kom m.a. fram að listinn mun hefja vinnu við gerð heildarstefnumótunar, sem markar leið sveitarfélagsins til framtíðar. Tækifærin séu mikil þótt verkefni næstu ára séu umfangsmikil í rekstri sveitarfélagsins eins og orkuöflun, uppbygging grunninniviða, skipulags- og atvinnumál, mennta-, frístunda og velferðarmál allra íbúa, ásamt fleiri þáttum, sem ný bæjarstjórn mun hafa að leiðarljósi á kjörtímabilinu.

Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg á sex bæjarfulltrúa í nýrri bæjarstjórn og þar með hreinan meirihluta. Hér eru fimm þeirra, frá vinstri. Brynhildur Jónsdóttir, Fjóla Kristinsdóttir, Bragi Bjarnason, Sveinn Ægir Birgisson og Helga Lind Pálsdóttir. Á myndina vantar Kjartan Björnsson, sem er erlendis.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ný bæjarstjórn tekur formlega til starfa á fundi 8. júní

„Við munum vinna þétt saman að þeim krefjandi verkefnum og tækifærum, sem framundan eru. Þá er það stefna okkar að leitast ávallt við að eiga gott samstarf við alla flokka í bæjarstjórn, enda er samstarf og samvinna allra bæjarfulltrúa forsenda framfara og árangurs,“ segir Bragi Bjarnason, oddviti D-listans í Árborg.

Fjóla og Bragi munu skipast á að sitja í stól bæjarstjóra, hún fyrstu tvo árin og hann hin tvö á kjörtímabilinu.Magnús Hlynur Hreiðarsson


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×