Þó að hækkun fasteignamats hugnist mörgum ekki vegna tilheyrandi hækkunar fasteignagjalda voru aðrir sem hugsuðu sér gott til glóðarinnar þegar tilkynnt var um tuttugu prósent hækkun fasteignamats að meðaltali á landsvísu.
Hækkað fasteignamat þýðir nefnilega aukið svigrúm til endurfjármögnunar húsnæðislána sem fólk getur notað til að lækka mánaðarlega greiðslubyrði eða til aukinnar eignamyndunar, til að mynda með framkvæmdum á húsnæði.
Þeir sem eru í viðskiptum við Landsbankann og Arion banka geta nú þegar sótt um endurfjármögnun sem miðar við hærra fasteignamat ársins 2023.
Viðskiptavinir Íslandsbanka munu hins vegar þurfa að bíða til næsta árs til að endurfjármagna.
„Við kaup á nýjum eignum er horft til kaupverðs eignar en við endurfjármögnun er miðað við fasteignamat. Ákvörðun þessi er tekin í ljósi aðstæðna á fasteignamarkaði og í samræmi við aðgerðir Seðlabankans,“ segir í svari bankans við fyrirspurn Vísis.
Orðrómur hefur verið uppi um að starfsmenn bankans hafi verið óánægðir með ákvörðun bankans sökum þess að viðskiptavinir hafi margir hverjir verið óánægðir með hana og látið það bitna á starfsmönnum á gólfi. Þá segir sagan að eins konar neyðarfundur hafi verið í haldinn í bankanum sökum þessa. Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka slær á þessar sögusagnir og segir engan innan bankans kannast við slíkan fund.