Innlent

Sæ­var Freyr á­fram bæjar­stjóri á Akra­nesi í nýjum meiri­hluta

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Nýr meirhluti Bæjarstjórn Akranesbæjar, skipaður fulltrúum úr Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum.
Nýr meirhluti Bæjarstjórn Akranesbæjar, skipaður fulltrúum úr Samfylkingunni og Sjálfstæðisflokknum. aðsend

Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa komist að samkomulagi um myndun nýs meiri­hluta í bæjar­stjórn Akraneskaupstaðar kjörtímabilið 2022 – 2026, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá flokkunum.

Samkvæmt tilkynningunni verður Sævar Freyr Þráinsson áfram bæjarstjóri en hann var samhljóða ráðinn bæjarstjóri Akraness 2017 og voru flokkarnir sammála um áframhaldandi bæjarstjórastöðu hans fyrir nýafstaðnar sveitastjórnarkosningar. Þá verður Líf Lárusdóttir, Sjálfstæðisflokki, formaður bæjarráðs og Valgarður Lyngdal Jónsson, Samfylkingu, forseti bæjarstjórnar.

Fram kemur í tilkynningunni að mál­efna­samningur meiri­hlutans hafi verið samþykktur en í inngangi hans segir að lögð verði áhersla á gott samstarf við íbúa og áframhaldandi uppbyggingu og þróun á virku íbúalýðræði. Áfram verður unnið að því að styrkja fjárhagsstöðu bæjarsjóðs.

Samfylkingin mun fara með formennsku í velferðar- og mannréttindaráði og mennta- og menningarráði en Sjálfstæðisflokkurinn verður með formennsku í skipulags- og umhverfisráði.

Meirihlutaviðræður fyrri meirihluta strönduðu

Fyrri meirihluti Samfylkingar og Framsóknar á Akranesi mun því heyra sögunni til. 

Flokkarnir hófu viðræður um áframhaldandi samstarf eftir kosningar en þeim viðræðum var slitið. 

Fram kom í tilkynningu á Facebook frá Samfylkingunni á Akranesi fyrir viku að þau hafi upplifað fyrsta fund flokksins við Framsókn, um áframhaldandi samstarf, sem atvinnuviðtal. Framsókn hafi lagt fyrir Samfylkingu afarkosti sem þau gætu ekki sætt sig við. Viðræður hafi því siglt í strand.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×