Innlent

Þurfa ekki að greiða fyrir þá sem borguðu ekki fyrir bílastæðin

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Deilt var um greiðslur vegna notkunar á bílastæðum í bílastæðahúsi Hafnartorgs.
Deilt var um greiðslur vegna notkunar á bílastæðum í bílastæðahúsi Hafnartorgs. Vísir/Vilhelm

Brimborg ehf. þarf ekki að greiða Rekstrarfélagi Hafnartorgs rúmar fimmtíu þúsund krónur í deilu félaganna um hvort að Brimborg bæri ábyrgð á því að greiða fyrir þá viðskiptavini bílaleigu félagsins sem nýttu sér bílastæði við Hafnartorg án þess að greiða fyrir það.

Deila Brimborgar og Rekstrarfélagsins Hafnartorgs snerist um þá leigutaka bílaleigu Brimborgar sem höfðu lagt í stæði í bílastæðahúsi við Hafnartorg í Reykjavík en ekki greitt fyrir afnotin. Rekstrarfélagið rekur bílastæðahúsið.

Rekstrarfélagið vildi meina að Brimborg bæri ábyrgð á því að greiða leigugjald þessara einstaklinga fyrir notkun á bílastæðum í húsinu, auk greiðslu á 1.800 króna innheimtukostnaðar.

Alls vildi rekstrarfélagið fá greitt fyrir 23 skipti þar sem leigutakar á bílum frá bílaleigu Brimborgar höfðu lagt í bílastæðahúsinu en ekki greitt fyrir noktun þess. Krafðist rekstrarfélagið þess að fá greiddar 52.499 krónur vegna þess.

Þurfa að greiða fjórtánfalda upphæð kröfunnar í málskostnað

Brimborg hafnaði greiðslunni á þeim grundvelli að félagið hefði ekkert um það að segja hvað leigutakarnir gerðu á bílunum á leigutímanum. Ekki væri hægt að rukka bílaleiguna heldur þyrfti að rukka hvern ökumann fyrir sig.

Frá HafnartorgiVísi/Vilhelm

Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var vísað í skilmála Brimborgar sem leigutakar þurfa að gangast undir vilji þeir leigja bíl af félaginu. Þar er tekið fram að leigutakinn sé ábyrgur fyrir öllum stöðusektum, stöðugjöldum, sektum fyrir umferðarbrot, veggjöldum eða öðrum sambærilegum sektum og gjöldum.

Með vísan til þess taldi héraðsdómur það ómögulegt að líta svo á að Brimborg væri ábyrgt fyrir því að greiða sektir leigutaka félagsins.

Var Brimborg því sýknað af kröfu Rekstrarfélagsins. Alls þarf félagið að greiða Brimborg 750 þúsund krónur í málkostnað vegna málsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.