Innlent

Við­reisn hafi að­komu frá hægri í meiri­hluta­við­ræðunum

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur líst nokkuð vel á komandi meirihlutaviðræður sem hafa legið í loftinu síðustu viku og hefjast loks formlega í dag. 
Þórdísi Lóu Þórhallsdóttur líst nokkuð vel á komandi meirihlutaviðræður sem hafa legið í loftinu síðustu viku og hefjast loks formlega í dag.  Vísir/Ragnar

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi og oddviti Viðreisnar í borginni, líst ágætlega á komandi meirihlutaviðræður bandalagsins og Framsóknar í borginni og áréttar sérstöðu Viðreisnar í meirihlutaviðræðunum enda eigi flokkurinn aðkomu í viðræðurnar frá hægri ás stjórnmálanna.

„Nú hefur vika þreifinga átt sér stað og við höfum átt fundi, þannig nú viljum við bara halda áfram að tala saman og átta okkur á því hvort samleiðin sé ekki eins og hún lítur út á stefnuskránum.“ sagði Þórdís Lóa í viðtali viðfréttastofu að loknum blaðamannafundi í Grósku í morgun.

Boðað var til fundarins til þess að tilkynna um formlegar viðræður Framsóknar við bandalagsflokkana þrjá; Samfylkingu, Pírata og Viðreisn.

Þórdís tekur þó fram að flokkarnir séu á algjörum byrjunarreit í viðræðunum en varðandi samningsstöðu Viðreisnar og kröfur flokksins í viðræðunum segist Þórdís Lóa ekki vilja tíunda þær kröfur sérstaklega. Viðreisn leggi þó áherslu á atvinnu og nýsköpun og sérstaða flokksins helgist af vilja til sjálstæðs reksturs í velferðar- og skólamálum.

„Við erum að kynna ákveðna pólitíska breidd og Viðreisn hefur sína aðkomu í viðræðurnar frá hægri. Við teljum mikið pláss fyrir okkar sýn í viðræðunum.“

Þórdís hlær að spurningu fréttamanns um það hver ætti að verða borgarstjóri og furðar sig á því að enginn skuli vera að spyrja sig sjálfa að því.

„Þetta snýst ekki endilega um það hver er borgarstjóri. Þegar uppi er staðið er þetta meirihlutasamstarf fjögurra flokka og það er enginn einn sem ræður öllu, það er svolítið nútíminn í pólitík.“ sagði Þórdís Lóa að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.