Innlent

Kol­brún sorg­mædd vegna meiri­hlutans sem er í pípunum

Jakob Bjarnar skrifar
Kolbrún ræðir við Hildi Björnsdóttir, oddvita Sjálfstæðisflokksins, í nýafstaðinni kosningabaráttunni. Hún segist sorgmædd og kvíði komandi kjörtímabili því nú sé sú von úti að þau geti komið sínum málum fram, í þágu fólksins í borginni.
Kolbrún ræðir við Hildi Björnsdóttir, oddvita Sjálfstæðisflokksins, í nýafstaðinni kosningabaráttunni. Hún segist sorgmædd og kvíði komandi kjörtímabili því nú sé sú von úti að þau geti komið sínum málum fram, í þágu fólksins í borginni. vísir/vilhelm

Kolbrún Baldursdóttir, leiðtogi Flokks fólks í borginni, lýsir yfir sárum vonbrigðum með þann meirihluta sem nú stefnir í.

„Í borginni var ég að vonast eftir breytingum þannig að fólkið sjálft, þjónusta við það og aðbúnaður þeirra sem hafa það bágt yrði bætt. Þetta eru forgangsmál okkar í Flokki fólksins en mér finnst fólkið sjálft og þarfir þess ekki hafa verið forgangsmál þessa meirihluta samanber alla þessa biðlista og vaxandi fátækt í borginni með tilheyrandi vanlíðan,“ segir Kolbrún í samtali við Vísi.

Í dag kynntu leiðtogar Samfylkingar, Pírata, Framsóknarflokks og Viðreisnar það að þau séu nú í viðræðum um meirihlutasamstarf í Reykjavík. Blásið var til blaðamannafundar af því tilefni og helst á þeim sem þar voru fyrir svörum að skilja að fátt geti komið í veg fyrir að af því samstarfi verði.

Kolbrún segir þetta mikil vonbrigði. Hana, og þau í Flokki fólksins, langaði mjög að fá tækifæri til að vinna að breyttri forgangsröðun í þágu fólksins næsta kjörtímabil.

„Sú von er úti en eftir því sem ég heyri, þá heldur þessi meirihluti áfram og þeirra áherslur eru ekki líklegar til að breytast. Alla vega ekki mikið, held ég. 

Þess vegna er ég sorgmædd og leið og kvíði næsta kjörtímabili og því að geta ekki haft áhrif til að breyta.“

Kolbrún segist ætla að halda áfram, eftir sem áður, að benda á það sem betur má fara og leggja fram tillögur um breytingar. „Eins og ég hef gert í miklum mæli, ég hef verið mjög afkastamikil en málum okkar í minnihluta hefur bara verið hafnað. Eins og margoft hefur komið fram hjá okkur í minnihlutanum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×