Innlent

50 þúsund ferðamenn mæta í Grundarfjörð í sumar

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, sem mun hafa meira en nóg að gera með sínu fólki að taka á móti ferðamönnum í sumar.
Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar, sem mun hafa meira en nóg að gera með sínu fólki að taka á móti ferðamönnum í sumar. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Grundfirðingar eiga von á miklu lífi og fjör í bænum í sumar því þangað eru væntanlegir fimmtíu þúsund ferðamenn með skemmtiferðaskipum. Bæjarstjórinn lofar að vel verið tekið á móti gestunum og þeir hafi nóg að skoða og borða á Snæfellsnesinu.

Umsvif hafnarinnar í Grundarfirði er alltaf að aukast en í sumar verða það ferðamennirnir, sem munu mæta á staðinn í tugþúsunda tali.

„Já, við eigum von á um fimmtíu þúsund gestum í sumar. Við vorum með tuttugu og þrjú þúsund gesti síðasta heila sumarið fyrir covid, sem var 2019 og við erum að reikna með 54 skipum næsta sumar með 65 þúsund gesti, þannig að það verður nóg að gera,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri Grundarfjarðarbæjar.

En hvað ætlar Björg og hennar fólk í Grundarfirði að gera fyrir alla þessa ferðamenn?

„Já, það vill svo til að Snæfellsnes er allt undir og það er nóg að skoða. Það er náttúrulega fyrst og fremst náttúran og góður matur, þannig að við finnum fullt að gera fyrir þetta fólk.“

Björg segir að Grundarfjörður sé að færast upp um deild hvað varðar móttöku skemmtiferðaskipa og gesta þeirra í höfninni, ásamt fiskiskipum vegna mikilla framkvæmda við höfnina á síðustu árum.

Það verður meira en nóg að gera í Grundarfirði í sumar að taka á móti ferðamönnum, sem koma með skemmtiferðaskipum á staðinn.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Við tökum því dálítið alvarlega hvernig að við ætlum að þjónusta ferðamennina, því við ætlum ekki að missa frá okkur gesti út af því að þjónustan sé ekki nógu góð, þetta er alveg áskorun,“ segir Björg.

Það er þó eitt vandamál í Grundarfirði talandi um alla ferðamennina, sem eru á leiðinni þangað.

„Já, mig vantar fólk í störf, fléttið endilega upp á heimasíðunni okkar og komið til okkar,“ segir Björg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×