Innlent

Þór­dís Sif ekki endur­ráðin sem sveitar­stjóri

Bjarki Sigurðsson skrifar
Þórdís Sif Sigurðardóttir mun ekki halda áfram sem sveitarstjóri Borgarbyggðar.
Þórdís Sif Sigurðardóttir mun ekki halda áfram sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Aðsend

Þórdís Sif Sigurðardóttir mun ekki halda áfram sem sveitarstjóri Borgarbyggðar. Hún hefur gengt starfinu síðastliðin tvö ár.

Í nýafstöðnum kosningum fékk Framsóknarflokkurinn fimm meðlimi kjörna í sveitarstjórn Borgarbyggðar og felldi þar með meirihluta Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.

„Það að fá tækifæri til að starfa sem sveitarstjóri í mínum heimabæ í tvö ár, nýta mína þekkingu og ást á samfélagsins hefur verið virkilega gefandi. Þetta hefur verið mikið lærdómsferli og hef ég öðlast gríðarlega reynslu á stuttum tíma. Krísustjórnun, breytingarstjórnun, samningatækni og hvað þetta mannlega skiptir miklu máli hefur komið skýrt fram á tímabilinu,“ segir Þórdís í færslu á Facebook-síðu sinni.

Hún segir að starfið hafi verið virkilega gefandi og að hún hafi öðlast gríðarlega reynslu á þessum stutta tíma. Hún hefði þó viljað halda áfram sem sveitarstjóri. 

„Endurskipulagning og umbætur í stjórnsýslu taka tíma og tvö ár eru ekki nógu langur tími til að innleiða slíkar breytingar. Róm var ekki byggð á einum degi.“

Í samtali við fréttastofu segir Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarmanna í Borgarbyggð, að ekki sé búið að ráða arftaka Þórdísar.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, oddviti Framsóknarflokksins í Borgarbyggð.Aðsend

„Við erum að fara yfir þetta núna og það er óráðið enn þá með hvaða hætti við förum í þetta ferli,“ segir Guðveig.

Ákvörðunin um að ráða nýjan sveitarstjóra var tekin fyrir kosningar en Guðveig vill meina að þetta þýði ekki að flokkurinn sé ósáttur með störf Þórdísar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.