Það eru að verða komnir fjórir dagar frá því að niðurstöður kosninga lágu fyrir og enn er ekkert farið að skýrast með myndun meirihluta í borginni.
Að teknu tilliti til alls og alls er það helst stjórn Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar sem rætt er um. Það eru þrettán.
Dagur, Einar og Dóra gætu þó komist að þeirri niðurstöðu að þau þyrftu ekki á Þórdísi að halda, enda þarf bara að telja upp að tólf.
Á sama hátt gæti Þórdís Lóa endurskoðað óformlegt bandalag sitt með Samfylkingu og Pírötum, farið og rætt við Sjálfstæðisflokk og myndað stjórn með honum, Framsóknarflokki og Flokki fólksins.
Það er líka eini sjáanlegi möguleiki Sjálfstæðisflokksins, nema ef Samfylkingin kysi að vinna með honum.
Samfylking og Sjálfstæðisflokkur ekki fyrsti kostur
„Það er ekki fyrsti kostur. En allt má skoða,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Dagur vill ekki tala við ykkur? „Við höfum ekki rætt saman símleiðis.“
Hildur segist ósammála því að Sjálfstæðisflokkurinn sé í þröngri stöðu; og ítrekar að fleiri en einn möguleiki sé í stöðunni fyrir flokkinn.
„Það eru ýmis mynstur í umræðunni og ég held að það muni koma svolítið í ljós, hvað er verið að ræða og það gæti orðið svolítið óvænt.“
Þannig að þú boðar tíðindi?
„Hugsanlega. Það er að minnsta kosti verið að ræða lausnir sem gætu markað ákveðin tíðindi.“
Hvenær má vænta þeirra? „Ég veit það ekki. Við erum bara að taka þessa umræðu og að vanda okkur öll, þannig að kannski í kvöld, kannski á morgun, maður skal ekki segja. Ég gef bara loðin svör. Trúnaður skiptir öllu þegar maður er í svona viðkvæmum umræðum.“