Innlent

Leigubílsstjórar í Róm svindla alltaf á Tomma

Jakob Bjarnar skrifar
Tommi deildi með þingheimi reynslu sinni af leigubílum víðs vegar um heiminn.
Tommi deildi með þingheimi reynslu sinni af leigubílum víðs vegar um heiminn. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra mælti fyrir frumvarpi sínu um leigubíla nú síðdegis og þegar þetta er skrifað er það til umræðu á þinginu. Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins, vakti athygli í umræðunni með því að deila með þingmönnum persónulegri reynslu sinni af leigubílum víðs vegar um veröldina.

Leigubílafrumvarpið hefur verið nokkuð til umfjöllunar eins og sjá má hér undir í „tengdum greinum“. Ekki voru mikil átök um málið á þinginu heldur ræddu þingmenn ýmsa núansa á því. 

Dýrir leigubílarnir í Osló

Tómas, sem betur er þekktur sem Tommi á Tommaborgurum, steig í ræðupúlt og vildi hins vegar deila með viðstöddum reynslu sinni af leigubílum. Hér og þar í veröldinni:

Í Buenos Aires í Argentínu, þar segir Tommi að ekki sé nokkurt mál að fá leigubíl, þeir séu hvarvetna og allstaðar við hendina.

Þegar Tommi er í New York þá tekur hann ýmis Taxi eða Uber og segir að þar sé um áþekka þjónustu að ræða.

Í London bregður svo við, að sögn Tomma, að þar þurfa menn sem vilja gerast leigubílsstjórar að keyra um borgina í sex mánuði og læra göturnar utanbókar, sem skipta þúsundum. Í Uber noti þeir hins vegar google maps.

Þeir sem eru í L.A. í Bandaríkjunum, þeim dettur ekki í hug annað en leigja sér bíl.

„Í Róm, þar er alltaf reynt að svindla á mér,“ sagði Tommi og sagði að ýmsu að hyggja. Og nú tók að draga að því sem hann vildi til málanna leggja efnislega.

Þegar Tommi var í Osló 2015 kostaði 34 þúsund krónur að fara með leigubíl af flugvellinum niðrí bæ. Þetta þykir Tomma dýrt og er ekki einn um það.

Hanna Katrín, sem hefur látið frumvarp innviðaráðherra sig varða, þakkaði Tomma fyrir áhugaverða yfirreið yfir leigubílamarkað heimsins.Vísir/vilhelm

Vill lækka verð á bensíni fyrir leigubílsstjóra

Þá vék Tommi máli sínu að leigubílum í Reykjavík. Þeir séu frekar dýrir. Og þeir verði að vera dýrir því það er dýrt að búa á Íslandi og bensínið er dýrt. Því vildi Tommi gera það að tillögu sinni að athugað yrði hvort ekki væri vert að leigubílsstjórum sé gert kleift að kaupa bensín á niðursettu verði. Ef það kynni að verða til þess að lækka gjaldið fyrir farþegana.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar sem hefur látið sig þessi mál mjög varða, var næst í púlt og þakkaði „áhugaverða yfirreið yfir leigubílamarkað heimsins“. Hanna Katrín sagði að nú sæist fyrir enda á því tímabili þar sem þeim sem efni hafa á fá afslátt á kaupum á rafmagnsbílum. Hvort ekki væri betri hugmynd að framlengja það ef um leigubíla er að ræða sem hefði sömu verðáhrif en töluvert betri umhverfisáhrif.


Tengdar fréttir

Stefnt að því að afnema stöðvaskyldu og kvóta

Stefnt að því að breyta rekstrarumhverfi leigubifreiða fyrir 2020. Hanna Katrín Friðriksson saknar þess að minnst sé á tækninýjungar við gjaldtöku. Slíkt gæti gert fyrirtækjum á borð við Uber hægara um vik að hefja starfsemi hér á landi.

Ráð­herra vill frið­mælast við leigu­bíl­stjóra

Einar Hafsteinn Árnason, formaður Fylkis sem er félag leigubílsstjóra á Suðurnesjum, átti fund með Sigurði Inga Jóhannssyni samgönguráðherra nýverið. Einar segir að ráðherra hafi gefið til kynna að hann myndi tala fyrir því að stöðvaskylda verði inni í nýju frumvarpi um leigubílaakstur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.