Góðir gestir komu nýlega færandi hendi í Fischersetrið á Selfossi og færðu safninu að gjöf innrammaða og myndskreytta grein á íslensku og úrdrátt úr henni á ensku um fjármálin tengd Einvígi aldarinnar. Þrátt fyrir að skrifaðar hafi verið fjölmargar bækur og margar greinar ritaðar um skákeinvígið hefur fjárhagshlið þess aldrei verið mikið uppi á yfirborðinu.
Hilmar Viggósson sá um fjármál einvígisins.
„Við byrjuðum má segja alveg blankir en einvígið endaði þannig fjárhagslega að við fórum með hagnað út úr því. Það var hagnaður upp á mig minnir 16 milljónir króna,“ segir Hilmar.
Hilmar segir að Bobby Fischer hafi fengið um 200 milljónir króna í verðlaun fyrir sigur í einvíginu á núvirði.

En hvað gerði hann við alla þessa peninga?
„Hann geymdi þá í banka og gott ef það var ekki í Landsbankanum í einhvern tíma.“
Einvíginu lauk 1. september 1972 en fyrsta skákin var teflt 11. júlí.
Leiði Bobby Fischers er í Laugardælakirkjugarði rétt við Selfoss þar sem hann hvílir. Guðni Ágústsson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra og velunnari Fischersetursins vill láta reisa risa styttu af Fischer við kirkjuna.
„Þangað koma rúturnar, það eru biðraðir oft á sumrin við grafreitinn. Fólk myndar sig við grafarsteininn og þar heiðra margir minningu hans. Ég vil fá upp á vegginn í Laugardælakirkju bestu skák Bobby Fiscers og okkar snillings, Friðriks Ólafssonar,“ segir Guðni.

En hvernig vill Guðni halda upp á 50 ára afmæli einvígsins?
„Það er bara þjóðhátið, þeir ætla að gera það, hingað koma bestu skákmenn heimsins og heimsmeistarinn að tefla, þannig að við eigum að gera þetta að ærlegri þjóðhátíð, skákþjóðin Ísland.“
