Innlent

Vill ekki að fólk oftúlki orð sín – stefnan sé sett á samflot

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík, segir að ekki megi oftúlka orð hennar um að útiloka ekki neinn. Oddvitar Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata hafi talað sig saman um að vera í samfloti í gegnum meirihlutaviðræður.

„Við erum núna búin að senda mjög skýr skilaboð inn í daginn og inn í næstu skref og við stöndum við þau.“

Of mikið hafi verið gert úr svari hennar frá því í morgun þegar hún sagðist, aðspurð, ekki útiloka neinn flokk. Hún hafi meint það með almennum hætti því Viðreisn útiloki ekki neitt í pólitík. Þórdís Lóa segir að ekki megi lesa í þessi orð annað en það.

„Við leiðumst inn í þetta og höfum tekið þá stefnu,“ segir Þórdís Lóa staðföst.

Sér á eftir Líf og Vinstri grænum

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna, greindi frá þeirri ákvörðun í gær að flokkurinn hygðist ekki sækjast eftir meirihlutaviðræðum. Þórdís segir að þetta hafi komið fráfarandi samstarfsflokkum svolítið á óvart.

„Það er mikil eftirsjá, finnst mér. Vinstri grænir hafa verið öflugir liðsmenn í meirihlutanum undanfarið, passað vel upp á loftslagsmálin og verið okkar helstu sérfræðingar í því svo að ég sakna þeirra svolítið úr menginu en þau eru náttúrulega ekkert farin úr borgarstjórn þannig að það eru verkefni sem við vinnum alveg þvert á flokka en þetta er náttúrulega alltaf svolítið útilokandi þáttur þegar stjórnmálaafl útilokar sig.

Miklu meira en sáttmáli um samgöngur

Þórdís Lóa segir að það sé brýnt að sigla stórum skipulagsmálum í höfn. Það hafi líka áhrif á ákvörðun um meirihlutamyndun.

„Meira en 60% kjósenda settu atkvæði sitt til flokka sem voru mjög skýrir um að halda samgöngusáttmálanum og borgarlínu gangandi. Þetta eru ansi skýr skilaboð. Fólk verður að vita það að samgöngusáttmálinn er svo miklu meira en sáttmáli um samgöngur. Hann er sáttmáli um loftslag og hann er sáttmáli um húsnæðisuppbyggingu. Það er ekki síst þess vegna sem við gömlu félagarnir í Pírötum og Samfylkingu ákveðum að leiðast inn í þessar meirihlutaviðræður sem mögulega eru framundan. Þetta er nefnilega risamál og eitthvað sem skiptir máli að komi ekki hik á.“

Þórdís Lóa vill koma á framfæri hamingjuóskum til Framsóknarflokksins sem hlaut gott gengi í nýafstöðnum kosningum. Hún segist lesa góða kosningu Framsóknarflokksins sem ákall kjósenda um aukna samvinnu.

„Ég les það þannig að þeirra góðu skilaboð um aukna samvinnu hafi bara verið breytingin sem fólk vildi sjá. Í byrjun kjörtímabilsins var mikil ólga og pólarísering. Sú ímynd og sú orka hélst svolítið inn í kjörtímabilið og við vorum lengi að ná samtóni. Borgarbúar fengu veður af þessu stöðugt í gegnum fjölmiðla og að ímyndin varð sú að það væri hver höndin upp á móti annarri sem það var sannarlega ekki. Ég skil vel að það var það sem fólki sýndist og þá koma skilaboð um góða samvinnu og að vinna til hægri og vinstri vel inn og á því vinnur Framsókn.“


Tengdar fréttir

„Við fórum yfir stöðuna og á­kváðum að halda saman“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar í borgarstjórn segir að oddvitar meirihlutaflokkanna hafi á fundi í gær ákveðið að „halda saman“. Miklar vangaveltur eru uppi um hvaða flokkar muni mynda meirihluta í borgarstjórn en meirihlutinn féll í sveitarstjórnarkosningum á laugardag. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.