Lífið

Oddvitaáskorunin: Sagðist aldrei ætla að keyra of hratt aftur og fékk ekki sekt

Samúel Karl Ólason skrifar
xd-baldur-bolafjall

Vísir stendur fyrir Oddvitaáskoruninni 2022 þar sem skorað er á oddvita allra flokka í sveitarfélögum um land allt að taka þátt. Áskorunin felur í sér stutta kynningu og að svara nokkrum léttum spurningum.

Baldur Smári Einarsson leiðir lista Sjálfstæðisflokksins og óháðra í Bolungarvík í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Baldur Smári Einarsson er oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík. Hann er 46 ára gamall og eru þetta hans fimmtu sveitarstjórnarkosningar í framboði. Baldur Smári er viðskiptafræðingur að mennt og starfar sem sérfræðingur í reikningshaldi og fjármálum hjá Arctic Fish á Ísafirði.

Ég bý með dætrum mínum tveim, Írisi Emblu sem er 18 ára og Önnu Dagný sem er að verða 11 ára. Ég hef sérstaklega gaman af eldamennsku og gönguferðum um Víkina mína fögru en önnur áhugamál eru golf, tónlist og ljósmyndun. Ég er í framboði fyrir Sjálfstæðismenn og óháða til að vinna að hag samfélagsins í Bolungarvík en mínar helstu áherslur snúa að því að efla innviði í Bolungarvík svo að bæjarfélagið geti vaxið í takti við aukna atvinnuuppbyggingu.

Sjálfstæðismenn og óháðir telja mikilvægt byggja upp og styrkja alla innviði bæjarins og þar verði megináhersla lögð á að hraða endurbótum og viðhaldi fasteigna bæjarins. Sundlaug Bolungarvíkur er bæði miðstöð bæjarbúa og vinsæll áfangastaður ferðamanna, við viljum ráðast í endurbætur á sundlauginni, leggja drög að stækkun hennar og framtíðarskipulagi íþróttamannvirkja. Það er einnig mikilvægt ráðast í átak til að gera bæinn okkar snyrtilegri. Þar ætlum við m.a. að halda áfram að endurnýja götur og gangstéttir í bænum, hvetja til aukinnar fegrunar bæjarins í samvinnu við íbúa og fyrirtæki og halda áfram að vinna gegn útbreiðslu kerfils í bæjarlandinu.

Stærsta verkefnið sem er framundan hjá okkur er að klára skipulag og hefja uppbyggingu á nýju íbúðahverfi þar sem gert er ráð fyrir rúmlega 50 nýjum íbúðum. Jafnframt viljum við efla vatnsveitu bæjarins með þeim hætti að allt neysluvatn komi framvegis úr borholum í stað yfirborðsvatns. Sjálfstæðismenn og óháðir vilja tryggja að Bolungarvíkurhöfn verði áfram í fremstu röð meðal fiskihafna landsins og teljum við mikilvægt að tryggja að nægt rými verði fyrir áframhaldandi uppbyggingu á hafnarvæðinu.

Bolungarvík stendur á tímamótum þar sem í augsýn er aukin atvinnuuppbygging sem á eftir að leiða af sér fólksfjölgun í bæjarfélaginu. Sveitarfélagið er vel rekið og vel í stakk búið til að takast á við frekari vöxt. Kosningarnar 14. maí munu snúast um framtíðina og þá hverjum kjósendur treysta best til að leiða Bolungarvík í gegnum komandi uppgangstíma. Ég horfi björtum augum fram á við og er viss um að góðir og spennandi tímar séu framundan í Víkinni fögru við Ísafjarðardjúp.

Hver er fallegasti staðurinn á Íslandi?

Bolafjall við sólsetur er bæði fallegasti og magnaðasti staður á Íslandi. Með nýjum útsýnispalli út fyrir ystu brún Bolafjalls munu enn fleiri geta notið dýrðarinnar.

Er eitthvað lítilvægt sem fer þó í taugarnar á þér í þínu sveitarfélagi sem þú vilt að sé lagað?

Ég myndi vilja sjá aukinn snjómokstur á göngustígum og meiri hálkuvarnir þegar þess þarf.

Hvert er þitt uppáhalds áhugamál sem gæti þótt skrítið?

Mér finnst stundum mjög gaman að leika mér við útreikninga í Excel.

Hver eru þín minnistæðustu samskipti við lögregluna?

Þegar Einar heitinn Þorsteins tók mig fyrir alltof hraðan akstur í spyrnu á menntaskólaárunum. Hann gaf mér þau föðurlegu ráð að gera þetta aldrei aftur, ég jánkaði og aldrei skilaði hraðasektin sér til mín.

Hvað færðu þér á pizzu?

Pepperoni, sveppir, laukur, svartar ólívur og jalapeno er blanda sem heillar mig.

Hvaða lag peppar þig mest?

Sódóma með Sálinni hans Jóns míns.

Hvað getur þú tekið margar armbeygjur?

Kannski tíu á góðum degi, annars eru armbeygjur ekki í miklu uppáhaldi hjá mér.

Göngutúr eða skokk?

Klárlega göngutúr, góður göngutúr um Víkina fögru.

Uppáhalds brandari?

Tveir veiðimenn eru upp á Skálavíkurheiði þegar annar þeirra hnígur niður. Hann virðist hættur að anda og augun í honum eru gljáandi. Hinn maðurinn takur fram farsímann sinn og hringir í neyðarlínuna. Hann segir óðamála: „Vinur minn er dáinn! Hvað á ég að gera?" Starfsmaður neyðarlínunnar svarar: „Vertu rólegur, ég get hjálpað þér. Fyrst verðum við að vera vissir um að hann sé dáinn." Það er þögn um stund, síðan heyrist byssuskot. Veiðimaðurinn kemur aftur í símann og segir: „Ókei. Hvað svo?"

Hvað er þitt draumafríi?

Ef það á að vera frí þá er það golfferð til Spánar, en ef það er ferðalag þá er það sólarströnd með dætrum mínum.

Hvort fannst þér 2020 eða 2021 vera verra ár?

Þetta voru ekkert slæm ár, pínulítið öðruvísu en mér fannst 2021 vera betra ár.

Uppáhalds tónlistarmaður?

Ég get ekki bundið mig við einn tónlistarmann en undanfarin misseri hef ég mikið hlustað á Kygo, Avicii, Martin Garrix og David Guetta. Hér áður fyrr var ég mikill aðdáandi Queen og Freddie Mercury.

Hvað er það skrýtnasta sem þú manst eftir að hafa gert?

Kannski ekki það skrýtnasta en allavega það óvæntasta sem ég hef gert er að hafa samþykkt að fá hund inn á heimilið. Klárlega góð ákvörðun enda erum við Svala orðin mestu mátar og getum varla án hvors annars verið.

Ef það væri gerð kvikmynd um ævi þína, hver ætti að leika þig? Má vera íslenskur eða útlenskur.

Jack Black.

Hefur þú verið í verbúð?

Ég hef að sjálfsögðu verið í góðum partýum í verbúðum í en bjó þó aldrei á verbúð í Bolungarvík.

Áhrifamesta kvikmyndin?

Íslenska gamanmyndin Albatross hefur haft mikil áhrif á mig, hún er einstaklega fyndin og fyllir mig miklu stolti enda er sögusviðið kunnuglegt, golfvöllurinn í Bolungarvík.

Áttu eftir að sakna Nágranna?

Það sakna allir góðra granna.

Ef þú yrðir að flytja úr þínu sveitarfélagi, hvert myndir þú helst vilja fara?

Ég held ég myndi fara á Akranes ef ég þyrfti að flytja úr Víkinni okkar fögru.

Uppáhalds „guilty pleasure“ lag? (skammast þín smá fyrir að hafa gaman af því – sakbitin sæla)

Gloria Gaynor – I will survive.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.