Innlent

Píratar mælast stærri en Sjálf­stæðis­menn í borginni

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, mættust í Pallborðinu á Vísi í síðustu viku.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, og Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna, mættust í Pallborðinu á Vísi í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Píratar eru orðnir stærri en Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík ef marka má nýjustu könnun Fréttablaðsins um fylgi flokka fyrir komandi borgarstjórnarkosningar á laugardag. Meirihlutiflokkarnir myndu samkvæmt könnuninni halda velli og raunar bæta við sig einum borgarfulltrúa.

Í þessari könnun, sem Prósent gerði fyrir blaðið, er Samfylkingin langstærsti flokkur borgarinnar og fengi tæp 27 prósent atkvæða og sjö borgarfulltrúa kjörna.

Þar á eftir koma Píratar með tæp átján prósent, meira en tíu prósentum meira en í síðustu kosningum og fengju fjóra fulltrúa en hafa tvo í dag.

Þvínæst kemur Sjálfstæðisflokkurinn með rúm sextán prósent atkvæða en flokkurinn fékk rúm 30 prósent síðast. Þetta þýðir að hann myndi missa fjóra af sínum átta fulltrúum í borgarstjórn.

Í grafinu hér neðan má fletta í gegnum niðurstöðu síðustu skoðanakannana í borginni.

Framsóknarflokkurinn næði inn þremur mönnum eins og raunin hefur verið í undanförnum könnunum en flokkurinn hefur engan í dag og Sósíalistar myndu ná tveimur fulltrúum inn.

Viðreisn myndi missa annan sinna fulltrúa og VG héldu sínum eina. Flokkur fólksins heldur einnig sínum eina fulltrúa en aðrir flokkar, þar á meðal Miðflokkurinn mælast ekki með menn inni.

Í Fréttablaðinu segir einnig frá því hvernig fylgi skiptist milli hverfa og má sjá að Samfylkingin fengi 42 prósent fylgi í miðborginni og 36 prósent í Vesturbænum. Píratar eru sterkastir í póstnúmeri 109 þar sem þeir mælast með 27 prósent. Sjálfstæðismenn mælast stærstir í Árbæ og Grafarvogi, um 27 og 25 prósenta fylgi.

Nánar má lesa um könnunina í frétt Fréttablaðsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.